Óhætt er að segja að stór hluti landsmanna sé forviða vegna þeirrar fyrirlitningar sem ítrekað blossaði upp í ræðum gesta á landsfundi Sjálfstæðisflokksins gagnvart Evrópuríkjum um helgina.
Nú þegar Bandaríkjaforseti er með öllu ófyrirsjáanlegur í ákvarðanatöku og varnarmál ríkja eru á fleygiferð, þess utan að vaxandi fjöldi Íslendinga sér helst skjól fyrir Íslendinga með sameinaðri Evrópu, þykja kaldar kveðjur Sjálfstæðisflokksins til ESB í besta falli vísbending um afneitun eða firringu, þar sem hvorugt sé líklegt til að afla Sjálfstæðisflokknum aukins fylgis.
Bubbi Morthens er í hópi þeirra sem undrast skilaboð Sjálfstæðisflokksins um helgina. Hann skrifar á facebook að frambjóðendur Sjálfstæðisfloksins telji ekkert skjól að finna í Evrópu þótt augljóst sé að Ísland þurfi nú að halla sér að vinaþjóðum.
Bubbi spyr hvar Guðrún Hafsteinsdóttir nýr formaður og Áslaug Arna séu staddar í huganum. En bendir á að Þórdís Kolbrún hafi verið á allt öðrum nótum þegar hún gagnrýndi Trump Bandaríkjaforseta harðlega.
„Þórdís sagði sannleikann í kveðjuræðu sinni,“ segir Bubbi.
Þá hafa margir málsmetandi Íslendingar bent á að Ísland eigi að tefla fram hlutleysi sínu sem aldrei fyrr og ekki styðja einn né neinn. Það spari okkur fé sem annars fari í hernaðarbrölt annarra þjóða og geri okkur síðar að skotmarki.
Þess má geta að Henrý Alexander Henrysson heimspekingur ræðir í kvöld við Rauða borðið á Samstöðinni ýmis siðferðisleg álitamál sem meðal annars tengjast landsfundinum, utanríkispólitík og nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins.