„Umræða um opinber fjármál er búin að færast mörg ár aftur í tímann. Það er kaldhæðni að fyrsti fjármálaráðherrann sem flutti fjármálaáætlun og fjármálastefnu var fyrsti formaður Viðreisnar. Þá fór hver einasta fagnefnd yfir málin með mælikvörðum og öðru því sem er ætlað að fylgja fjármálaáætlun. En nú er komið fram og var upplýst um það hér, sem er mikil frétt, af talsmanni Viðreisnar — af því að við sitjum uppi með fjármálaáætlun sem virðist vera fyrst og fremst umbúðir en ekki innihald — að menn vinna eftir skoðanakönnunum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson á Alþingi fyrr í dag.
„Skoðanakönnunum. Er búið að gera skoðanakönnun um það hvort almenningur sé fylgjandi því að kosningaloforð um að hækka ekki skatta á hann séu svikin? Er búið að gera þá skoðanakönnun? Er meiri hluti landsmanna fylgjandi því að sjálfshólsstjórn Kristrúnar Frostadóttur svíki þau loforð að hækka ekki skatta á almenning? Það væri áhugavert að heyra það frá hv. þingmönnum stjórnarliðsins, því að þegar bent er á að ekki bara kosningaloforð heldur skýr skrif í fjármálastefnu eru svikin þá hlær hæstv. ráðherra. Er búið að gera skoðanakönnun um hvort það sé ásættanlegt? Ég veit það ekki. Við fáum kannski að vita það seinna en ég veit að almenningur og fyrirtæki hlæja ekki. Almenningur og fyrirtæki sem verða fyrir þessum skattahækkunum þurfa að borga reikninginn. Það er ekki hlægilegt, virðulegi forseti.“