„Ég vil gera málefni íslensks vinnumarkaðar að minni umfjöllun hér í dag. Í ræðum í þessum stól hefur æðioft verið rætt um íslenskan vinnumarkað af mikilli vanþekkingu eða hreinlega miklum hroka. Þá eru það oftar en ekki fulltrúar atvinnurekenda sem hér eru sem vilja meina að staða launafólks sé of sterk, að launafólk ráði för þegar kemur að því að ákvarða launahækkanir, að staða launafólks sé svo sterk að það þurfi að grípa til aðgerða og að veikja þurfi stöðu þess,“ sagði Kristján Þórður Snæbjarnarson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins og fyrrum forseti Alþýðusambandsins.
„Hér á Íslandi búum við við þá stöðu að brotastarfsemi hefur fengið að viðgangast án lítilla inngripa atvinnurekenda eða hins opinbera. Vinnustaðaeftirlit verkalýðsfélaganna hefur hin seinni ár í reynd verið sá hluti sem hefur komið upp um fjölda brota þar sem farið hefur verið illa með starfsfólk. Oftar en ekki eru þetta einstaklingar í félagslega veikri stöðu, erlent vinnuafl, venjulegt fólk. Vinnustaðaeftirlit verkalýðsfélaganna hefur komið upp um flest brotin. Það hefur verið komið upp um mansal og verkalýðsfélögin hafa jafnframt gripið til aðgerða til að grípa þetta sama fólk og veitt því húsaskjól þegar starfsfólki hefur verið bjargað úr aðstæðum sem þessum. Gleymum því ekki að þessi hópur er varnarlaus,“ sagði Kristján Þórður og endaði ræðu sína svona:
„Stuðningsnet er sjaldnast til staðar hér á landi. Verkalýðsfélögin bera hitann og þungann af þessu eftirliti og gera það alfarið á sinn kostnað. Flest tilvik sem koma upp tengjast aðbúnaði og launaþjófnaði þar sem launafólk fær ekki greitt fyrir þá vinnu sem það sinnir og ekki greitt í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Og hver eru viðurlögin við því að brjóta vísvitandi — vísvitandi á starfsfólki? Því miður er tjón fyrirtækjanna sama og ekkert þegar upp kemst um launaþjófnað. Jú, fyrirtækin þurfa að leiðrétta launin, en það er allt og sumt. Það er kominn tími til þess að Alþingi Íslendinga grípi inn í og setji lög og ákvæði um févíti. Stöndum með fólkinu.“