Samkvæmt heimildum blaðamanns tilkynnti starfsfólk bráðamótöku Landspítalans í Fossvogi forsvarsfólk vistheimilisins Bjargs þ.e. Mannvirðingu ehf. á Seltjarnarnesi til Landlæknis vegna gruns um alvarlega vanrækslu á umönnun aldraðs vistmanns á Bjargi. Maðurinn sem um ræðir var sendur með sjúkrabíl frá Bjargi og fluttur á bráðamótökuna um sama leiti og Samstöðin flutti fyrstu fréttina af aðbúnaði íbúa þar í sumar.
Í fréttinni var farið sérstaklega yfir aðstæður mannsins sem hefur skerta hreyfigetu og hafður rúmliggjandi heilu dagana á herbergi sínu vegna lélegs aðbúnaðar og óviðunandi aðgengismála hússins en hann hefur nú verið fluttur á öldrunarstofnun.
„Engin viðeigandi stoðtæki voru til í húsinu, ekki hjólastóll til umráða og engin salerni í herbergjum. Notast er við handafl til að færa manninn í hægindastól þar sem hann dvelur jafnan á daginn og horfir á bíómynd eða hlustar á hlaðvarp sem starfsfólk setur fyrir framan hann á ipad. Hann er svo færður eins tilbaka á kvöldin,“ segir meðal annars í frétt okkar frá í júlí.
Guðmundur Sævar Sævarsson er forstöðumaður Mannvirðingar ehf. og hafði þetta að segja um aðbúnað mannsins í sumar: „Aðspurður sagðist Guðmundi ekki líða vel yfir þessum aðstæðum mannsins. Hann kvað ábyrgðina ekki sína eða Mannvirðingar ehf. sótt hefði verið um hjúkrunarrými fyrir íbúann og þess beðið að hann kæmist að á elliheimili. Ástæðan lægi því eins og í öðru hjá hinu opinbera og/eða Seltjarnarnesbæ og títtumræddum seinagangi kerfisins.“
Talsvert hefur verið fjallað um Bjarg síðan undirrituð hóf fréttaflutning þaðan. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar var harðorður í garð yfirvalda sem með réttu mætti segja að væru í djúpri skuld við geðheilbrigðiskerfið eftir brostin umbóta-loforð sl. ára. Þá kom fram í viðtali við Grím og Sigurþóru Bergsdóttur, bæjarstjórnarfulltrúa á Seltjarnarnesi í sumar-fréttatíma Samstöðvarinnar fyrir skemmstu að full vinna væri hafin við að koma íbúum Bjargs þaðan og stefnt er á að loka úrræðinu endanlega fyrir árslok.
Maður sem afplánar dóm fyrir alvarlegt brot gegn barni og var vistaður í öryggisvistun á Bjargi, án vitneskju bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar(mbl.is), sé jafnframt kominn í annað viðeigandi úrræði sem er einnig á vegum Mannvirðingar.
Óskað hefur verið eftir viðbrögðum frá skrifstofu Landlæknis vegna ofarnefndrar tilkynningar bráðamóttökunnar um meinta vanrækslu. Engin svör hafa borist þegar þetta er ritað en verða að sjálfsögðu færð hingað á vefinn strax og þau berast.