Samtökin No borders vekja athygli á meðferð flóttafjölskyldu frá Rússlandi sem fullyrt er að séu glæpur. Í tilkynningu frá samtökunum segir frá Gadzhi Gadzhiev, föður og fyrrum pólitískum fanga frá Rússlandi og konu hans Mariiam Taimova. Greint var frá máli hjónanna í fjölmiðlum í byrjun sumars. Síðan þá hafa hjónunum fæðst tvíburar hér á landi en fyrir áttu þau ungan son. Í tilkynningu frá No borders segir:
„Um hádegi í gær ruddust lögreglumenn með offorsi á heimili fjölskyldunnar. Farsímar voru gerðir upptækir, að því er virðist til að koma í veg fyrir að ólögmætar aðgerðir lögreglu næðust á mynd.
Móðir og systir fjölskylduföðursins, Gadzhi Gadzhiev voru viðstaddar og hótaði lögregla að vísa þeim einnig úr landi ásamt hinum. Þær hafi báðar fengið varanlegt dvalarleyfi hér á landi, einmitt á grundvelli þeirra ofsókna sem Gadzhi Gadzhiev sætir í Rússlandi.“
Fjölskyldan kom til Íslands árið 2024 en vegna viðkomu í Króatíu hefur mál þeirra verið afgreitt sem Dyflinarmál. Króatísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd harðlega af mannréttindasamtökum á borð við Amnesty International fyrir að senda fólk á flótta aftur til Rússlands.
Skv. tilkynningunni gaf lögreglan engar lagalegar skýringar á inngripinu, vísaði hvorki til laga né reglugerðar, heldur ruddist inn á heimili þeirra, fjarlægði síma og hafði þau í haldi yfir nótt eða þar til þau voru flutt burt í einkaflugvél sem tekin hafði verið á leigu gagngert undir fjölskylduna.
Athygli vekur að dætur þeirra hjóna, tvíburar fæddir fyrir aðeins tveimur vikum eftir bráðakeisaraskurð, sem skv. læknisráði tekur amk um mánuð að jafna sig á, eiga hvorki skilríki né fæðingarvottorð. Stúlkurnar litlu eru því algjörlega réttindalausar og óttast foreldrarnir það mjög hvað verði um börn sín.
Sex lögreglumenn fylgdu fjölskyldunni úr landi með einkaflugi og eru þau sem áður sagði komin til Zagreb í Króatíu, læst inni í lokuðu rými.