Róbert Guðfinnsson athafnamaður, sem býr á Siglufirði, upplýsir um aðstæður í pistli á facebook þegar sérsveitarmenn með hrískotabyssur lögðu undir sig bæinn í gærkvöld. Róbert segir að fjöldi lögreglubíla hafi mætt í miðbæinn, „þrír sérsveitarmenn vopnaðir hríðskotabyssum og jafnvel bulldóser til taks til að brjóta hurðir“.
„Hinir ætluðu „glæpamenn“ reyndust vera Lettar sem hafa unnið hér síðustu ár,“ segir Róbert. „Þeir voru nýkomnir úr stuttri heimsókn heim til sín og höfðu drukkið of mikið á leiðinni norður. Einn datt illa í stigann í íbúðarhúsi á mínum vegum og sást blóðugur ráfa um bæinn. Það varð til þess að kallað var á sjúkrabíl – og skömmu síðar mætti sérsveitin.
Þrátt fyrir bulldóser og MP5 hríðskotabyssur voru allar dyr ólæstar og aðgerðin endaði með því að þrír sofandi iðnaðarmenn og tveir til viðbótar voru handteknir og leiddir út í járnum. Sá sem datt var sendur á Akureyri, skoðaður og útskrifaður eftir stutta heimsókn og nokkur spor saumuð. Þegar þetta er skrifað eru tveir enn í haldi lögreglu.
Málið reyndist stormur í vatnsglasi. Engin vopn, enginn stunginn, enginn skotinn. Bara nokkrir harðduglegir menn á fylleríi.
Þegar svona verður að forsíðufréttum í íslenskum fjölmiðlum, þá er spurning hvort við séum komin fram úr okkur. Hefði sama gerst ef blóðugur Íslendingur hefði ráfað um Aðalgötuna? Eða var það þjóðerni hinna sem kallaði á sérsveitina?
Okkar ágæti dómsmálaráðherra og yfirstjórn lögreglunnar mættu íhuga hvort stefna og verklag séu farin að skapa vandamál í stað þess að leysa þau.
Við viljum ekki að Siglufjörður sé sviðsetning fyrir dramatískar aðgerðir sem eiga heima í kvikmyndum – heldur friðsæll bær þar sem fólk getur lifað sínu lífi í sátt,“ segir Róbert.