Vilhjálmur Bjarnason, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, segir Agli Helgasyni hjá Rúv til syndanna. Hann gefur í skyn að Ríkisútvarpið sé óþörf ríkisstofnun sem leggja eigi niður.
Ljóst er að færsla Egils um „væl“ hagsmunasamtaka vegna vanda Norðuráls í kjölfar bilunar, hefur vakið reiði verkalýðsforingjans. Mörgum þótti sem krafa gærdagsins úr hægrinu og hjá talsmönnum hagsmunasamtaka væri að ríkið kæmi til hjálpar. Ofan á alla þá fyrirgreiðslu sem áliðnaðurinn á Íslandi hefur notið og hefur leitt til stórgróða stóriðjunnar.
„Starfsfólk Norðuráls er ekki að biðja um neinn fjárstuðning frá ríkinu,“ segir Vilhjálmur og virðist taka orð Egils um væl persónulega.

„Það biður ekki um neina sérmeðferð eða aðgerðir á eigin kostnað ríkissjóðs. Það eru hins vegar aðrar óþarfa stofnanir í eigu ríkisins sem halda útréttum betlandi hendi daginn út og inn – og taki þeir það til sín sem eiga það,“ segir Vilhjálmur.
Og bætir við:
„Því á meðan sumir tala hátt í skjóli laga um opinbera starfsmenn, þá bíður starfsfólk Norðuráls í von og ótta og veit ekki hvort það hefur atvinnu á komandi mánuðum. Það er veruleikinn – og hann krefst samstöðu, ekki hroka.
Í lokin má segja að eina raunverulega vælið sem ég heyri er þegar talað er um að selja RUV eða taka það af auglýsingamarkaði,“ segir verkalýðsforinginn Vilhjálmur og sneiðir að ríkisstarfsmanninum Agli og stofnun hans svo um munar.
Margir aðrir hafa tekið undir gagnrýnina á Egil og hagfræðinga sem hafa rætt málið á svipuðum nótum. Þjóðfélagslegt mikilvægi stóriðjunnar hefur verið tíundað hvað varðar efnahagsmálin en allt of snemmt er að segja til um áhrif á starfsfólk og tengda starfsemi.
Aðrir fagna innleggi Egils og annarra gagnrýnenda mjög og halda á lofti á félagsmiðlum að margoft hafi ríkisfé verið notað í að bjarga hinum stóru og sterku en almenningur geti étið það sem úti frýs.
Þá hefur mikið verið skrifað um losun álveranna og mengun, sem kann að hafa áhrif á viðhorf fólks til bilunarinnar í álverinu og viðbragða stjórnvalda.