Það er veruleikinn – og hann krefst samstöðu, ekki hroka

„Umræðan um bilunina á Grundartanga hefur afhjúpað eitt: að margir virðast ekki gera sér grein fyrir því hvað raunverulegt fólk stendur frammi fyrir í svona aðstæðum – og sérstaklega ekki þeir sem eru ávallt öruggir með sína launatekjur hjá hinu opinbera.

Staðan á Grundartanga er grafalvarleg. Menn vita ekki hvort stöðvunin varir í fjóra mánuði, átta eða jafnvel rúmt ár,“ skrifaði Vilhjálmur Birgisson á Akranesi.

Greinin hans fer hér á eftir:

„Á meðan bíður starfsfólk Norðuráls í von og ótta – fólk sem hefur lagt sál og líkama í vinnuna, staðið sína plikt og haldið hjóli atvinnulífsins gangandi.

Það þarf að segja hlutina beint út: venjulegt verkafólk á Íslandi er einungis 1 til 3 launaseðla frá því að lenda í alvarlegum fjárhagsvandræðum. Þegar launaseðillinn fellur niður í einn eða tvo mánuði getur allt hrunið – húsnæði, afborganir, tryggingar og framtíðaráform. Þetta er veruleiki fjöldans, ekki undantekningin.

Starfsfólk Norðuráls er ekki að biðja um neinn fjárstuðning frá ríkinu.

Það biður ekki um neina sérmeðferð eða aðgerðir á eigin kostnað ríkissjóðs.

Það eru hins vegar aðrar óþarfa stofnanir í eigu ríkisins sem halda útréttum betlandi hendi daginn út og inn – og taki þeir það til sín sem eiga það.

Eina sem starfsfólkið óskar eftir er að samkeppnisstaða gjaldeyrisskapandi fyrirtækja sé tryggð en ekki ógnað, því það er forsenda þess að tryggja rekstrar- og atvinnuöryggi fólks og fyrirtækja í landinu.

Þetta er fólkið sem skapar gjaldeyristekjur þjóðarinnar og tryggir þann grunn sem velferðarþjónustan okkar byggir á.

Norðurál stendur undir 11,4% af heildarútflutningsverðmætum Íslands, greiðir um 10 milljarða króna í skatta og opinber gjöld, hefur fjárfest fyrir 25 milljarða króna á síðustu fjórum árum og greiddi innlendum aðilum tæpa 50 milljarða króna í fyrra.

Um 575 manns starfa beint hjá fyrirtækinu og um 1000 störf í viðbót tengjast því óbeint – hundruð fjölskyldna sem nú standa frammi fyrir óvissu um afkomu sína.

Rétt er að ávarpa það sérstaklega að starfsfólk Norðuráls vann þrekvirki við að lágmarka skemmdir í kerjunum við þessar gríðarlega krefjandi aðstæður. Það sýndi fagmennsku, samstöðu og ábyrgð – og á hrós og þakklæti skilið fyrir þá vinnu.

Því á meðan sumir tala hátt í skjóli laga um opinbera starfsmenn, þá bíður starfsfólk Norðuráls í von og ótta og veit ekki hvort það hefur atvinnu á komandi mánuðum. Það er veruleikinn – og hann krefst samstöðu, ekki hroka.

Í lokin má segja að eina raunverulega vælið sem ég heyri er þegar talað er um að selja RUV eða taka það af auglýsingamarkaði.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí