Vilhjálmur Birgisson skrifaði:
Ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að veita Íslendingum og Norðmönnum ekki undanþágu frá verndartollum á kísiljárn eru hreint út sagt hryllileg vonbrigði.
Hvenær ætlar þetta að enda með áföll í atvinnumálum okkar Akurnesinga?
Nú stöndum við frammi fyrir grafalvarlegu máli sem snertir atvinnuöryggi fjölda fólks á Grundartanga og um allt samfélagið okkar. Þótt áhrifin á starfsemi Elkem séu ekki að fullu ljós enn, þá er eitt alveg augljóst:
Elkem hefur á undanförnum árum þurft að greiða milljarða króna í kostnað til að uppfylla íþyngjandi reglugerðir Evrópusambandsins sem innleiddar eru samkvæmt EES-samningnum — allt til að tryggja að Ísland sé hluti af innri markaðinum.
Og hvað fáum við fyrir vikið?
Evrópusambandið ákveður að þverbrjóta EES-samninginn með því að beita verndartollum á vörur frá EES-löndum, þar á meðal Íslandi og Noregi, sem eiga samkvæmt samningnum að njóta frjáls viðskipta og jafnræðis. Þjóð sem hefur staðið við allar sínar skuldbindingar er nú skyndilega sett til hliðar eins og afgangur.
Forstjóri Elkem, Álfheiður Ágústsdóttir, staðfesti í dag að „nýr veruleiki“ hefði tekið við hjá fyrirtækinu eftir þessa ákvörðun. Hún útilokaði ekki að samdráttur eða uppsagnir gætu orðið ef staðan versnar — og fyrirtækið er nú að teikna upp bæði svartar og bjartar sviðsmyndir. Jafnvel er til skoðunar að höfða mál gegn ESB. Sú staðreynd ein og sér undirstrikar hversu alvarlegt þetta brot er.
Ég spyr: Hvað kemur næst?
Álið? Fiskurinn? Aðrir orkufrekar stoðgreinar sem byggja á stöðugum markaðsaðgangi?
Er þetta virkilega framkoma sem við eigum að líða frá „samstarfsaðilum“ sem við höfum staðið með í áratugi?
Stjórnvöld, Alþingi og aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið ötullega að því að vinda ofan af þessari þróun, en nú er staðan orðin að veruleika:
ESB ber ævarandi skömm fyrir að brjóta EES-samninginn með þessum hætti.
Nú verða íslensk stjórnvöld að stíga fast til jarðar og verja íslensk fyrirtæki gegn þessari ósanngjörnu meðferð.
Við verðum að tryggja að samkeppnishæfni okkar haldist og að atvinnuöryggi fólks á Akranesi og um allt land sé varið.
Við eigum ekki að líða að samstarf sem byggir á jafnræði og gagnkvæmum skuldbindingum verði einsleit gata þar sem litlu þjóðirnar borga og fylgja reglum — en stórþjóðir brjóta þær þegar þeim hentar.
Nú verðum við að krefjast þess að samningarnir séu virtir og að Ísland fái þann rétt sem við höfum greitt hátt verð fyrir.
Þetta snýst ekki bara um fyrirtæki — heldur um framtíð okkar, störf okkar og samfélag okkar.