„Vinstri stjórnir hafa alla tíð viljað hækka skatta. Það er ekkert nýtt, alveg eins og það er ekki ný vitneskja að of miklar skattahækkanir draga úr tekjum ríkissjóðs og drepa niður atvinnulíf og nýsköpun með tilheyrandi afleiðingum,“ sagði Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Miðflokki fyrr í dag.
„Ríkisstjórnin boðar hvert skatta- og gjaldahækkunarfrumvarpið á fætur öðru og það virðist ekkert tillit tekið til afleiddra áhrifa eða breytts hegðunarmynsturs. Við lesum neikvæðar umsagnir um hvert málið á fætur öðru, hvernig lítil fyrirtæki um allt land verða fyrir barðinu á ofsköttun ríkisstjórnarinnar.
Dæmi: Lítið rútufyrirtæki, sem hefur byggst jafnt og þétt upp á undanförnum árum vegna komu skemmtiferðaskipa, verður núna fyrir algjöru tekjufalli vegna hruns í komum skemmtiferðaskipa í kjölfarið á ofsköttunarfrumvarpi þessarar ríkisstjórnar. Rútufyrirtækið þarf því að fækka bílum. Þessi sami aðili sér um skólaaksturinn í sínu bæjarfélagi á veturna en því verður fljótt sjálfhætt ef ekki er forsenda til að reka nógu marga bíla. Svo á að hækka skatta og gjöld á bifreiðaeigendur um marga milljarða á nánast einu bretti. Þegar kynntar eru stórar breytingar þarf að hafa fyrirsjáanleika og gera þær í skrefum og gæta að meðalhófi, en það er alls ekki gert. Gjaldskrárhækkanir ríkisins eru hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans, sem hjálpar auðvitað ekki til við að hér geti vextir lækkað. Allt bitnar þetta á endanum á neytendum. Það er hægt að láta heimilislaust fólk og börn með fíknisjúkdóma bíða endalaust eftir að hið fullkomna húsnæði verði tilbúið til að hefja meðferðarstarfsemi, en þegar kemur að risastórum skattkerfisbreytingum, sem á endanum skila minni tekjum í ríkissjóð, þá er ekki hægt að bíða,“ sagði Nanna Margrét og endaði ræðuna með þessum orðum:
„Ég mæli með að þessu verði snúið við: Græið úrræðin fyrir þá verst settu strax svo þau taki gildi um áramót. Þar liggur fyrir nákvæmlega hvað þarf að gera. En vinnið skattafrumvörpin ykkar betur svo að þau skili meiri tekjum í ríkissjóð.“