Gísli Tryggvason lögmaður, fyrrum framkvæmdastjóri BHM, spáir að dómsmálaráðherra Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir muni víkja ríkislögreglustjóra, Sigríði Björk Guðjónsdóttur, tímabundið frá störfum. Skipuð verði nefnd til að kanna óreiðu í fjármálum Sigríðar.
Bruðl Sigríðar Bjarkar með opinbert fé varð ljóst með frétt Ríkisútvarpsins á dögunum um gríðarháar greiðslur til ráðgjafa embættisins undir hatti félagsins Intru. Tímakaup fyrir pælingar um píluspjöld og snattferðir var á fjórða tug þúsunda hjá ráðgjafanum, Þórunni í boði skattgreiðenda.
Skoðun Gísla lögmanns kemur fram í viðtali Björns Þorlákssonar við hann á Samstöðinni í kvöld. Gísli hefur sjálfur setið í nefndum sem fjallað hafa um óreiðu í fjármálum.
Ef af þessu verður á næstu dögum eða vikum, segir Gísli að staðgengill ríkislögreglustjóra verði settur tímabundið.
Ef nefnd verður skipuð og niðurstaðan er að ríkislögreglustjóri hafi ekki farið á svig við góða stjórnsýsluhætti í rekstrinum, er ekki útilokað að sögn Gísla að Sigríður gæti sótt skaðabætur. Engin spurning sé að dómsmálaráðherra verði að aðhafast.
Í ummælum ráðherra í samtölum við blaða- og fréttamenn í gær lagði dómsmálaráðherra þunga áherslu á að málið væri alvarlegt.
Í 6. kafla laga númer 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er fjallað um málsmeðferð og réttarstöðu við lausn frá embætti um stundarsakir.
Mynd af Gísla: Pétur Fjeldsted.