Fjöldi fólks hefur orðið fyrir töfum í morgun vegna illfærðar sem fylgir mikilli snjókomu á suðvesturhorni landsins. Met virðist fallið er varðar snjódýpt í október í Reykjavík. Stofnæðir, einkum Kringlumýrarbrautin, hafa verið tepptar og umferð er víða mjög hæg. Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna ofankomu síðdegis á suðvesturhorninu.
Allnokkur óhöpp hafa orðið í morgun sem rekin eru til hálku. Lögreglan brýnir ökumenn, einkum á lélegum sumardekkjum, til að halda sig heima.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að spákort sem gildi til klukkan 16 í dag gefi til kynna mjög mikla úrkomuákefð á Suðurnesjum og þar með Reykjanesbrautinni.
Mæling snjódýptar kl. 9 í morgun við Veðurstofuna sýndi 27 sentímetra snjóþykkt.
„Líklega er það mesta mælda snjódýpt í Reykjavík í október,“ segir Einar.
Myndin er af spákortum sem Einar klippti saman og birti á facebook.