Laxeldisáform, sem kunna að hafa haft áhrif á forgangsröðun jarðgangaframkvæmda, eru köld kveðja til Seyðfirðinga. Þeir eru skildir eftir með brothætta og óvissa framtíð. Þetta segir Eyþór Stefánsson sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi í samtali við Samstöðina.
„Ég hef virkilegar áhyggjur af Seyðisfirði, þetta er enn eitt áfallið á stuttu tímabili,“ segir Eyþór og hefur miklar efasemdir um að tenging þeirra við Norðfjörð og meint hringtenging hafi mikið að segja eða sé hringtenging í raun.
„Ríkið er þvert á vilja Seyðfirðinga að þvinga laxeldi í Seyðisfjörð,“ segir Eyþór.
Eyþór lýsir því áfalli sem Austfirðingar og einkum Seyðfirðingar hafa nú orðið fyrir eftir að Fjarðaheiðargöngum var ýtt út af borðinu á samgönguáætlun.

Innviðaráðherra, Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins, hefur fært rök fyrir Fjarðagöngum með vísan til mögulegs laxeldis í Mjóafirði. Lengi hefur verið reynt að troða laxeldi upp á Seyðfirðinga í harðri andstöðu við vilja mikils meirihluta íbúa.
Eyþór líkir sorginni og uppnáminu við þegar skriðan stóra féll á Seyðisfjörð.
Eyþór kemst oft við í samtalinu við Björn Þorláks. Viðtalið er ríkt af tilfinningum. Hann segir að hann sjálfur og Austfirðingar muni berjast fram í rauðan dauðann fyrir þeim framkvæmdum sem þurfi að verða til að bæta byggðaskilyrði.
Sjá viðtalið hér: