Áskrifendum að Samstöðinni fjölgar mikið

Fjölmiðlar 17. sep 2023

„Frá því við byrjuðum af krafti eftir sumarleyfi hefur áskrifendum fjölgað jafnt og þétt, aldrei færri en fimm til sex sem bætast við á hverjum degi,“ segir Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar. „Við eigum hins vegar langt í land, ætli það taki ekki fimm ár í viðbót að renna sterkum stoðum undir Samstöðina. En ef það tekst, ef við deyjum ekki á leiðinni, þá getur Samstöðin orðið eilíf og ósnertanleg, varin fyrir hinum svokölluðu markaðsöflum sem helst vilja aðeins hafa hér fjölmiðla sem þjóna hinum fáu ríku.“

Þau sem vilja byggja upp Samstöðina geta gerst áskrifendur hér: Áskrift. Grunnáskriftin er aðeins 2.000 kr. á mánuði. Þau sem vilja styrkja Samstöðina beint geta lagt inn á reikning Alþýðufélagsins, bankanúmer: 1161-26-001669 Kennitala: 550891-1669.

„Við störfum eftir viðskiptamóteli bandarískra trúboðsstöðva, sendum út efni en látum síðan söfnunarbaukinn ganga,“ segir Gunnar Smári. Hann segir mikilvægt að halda útsendingum opnum og það sé líka í hag áskrifenda. Það sé miklu skemmtilegra að nota fjölmiðla sem aðrir nota líka.

„En við erum að undirbúa sérstakt efni sem aðeins áskrifendur hafa aðgengi að,“ segir Gunnar Smári. „En að stærstu leyti eru áskrifendurnir að byggja upp stöðina með okkur og auka útbreiðsluna. Verkefnið er að búa til sterkan miðil fyrir öfluga samfélagsumræðu og fréttir.“

Gunnar Smári segir að ríkisvaldið hjálpi ekki til. Styrkjakerfið sem smíðað hefur verið kringum einkamiðla er fyrst og fremst til að þjóna Mogganum, Viðskiptablaðinu og öðrum slíkum miðlum. Kerfið skekkir í raun samkeppnisstöðu smærri miðla, eins og Samkeppniseftirlitið hefur bent á, þar sem gerð er krafa um lágmarks fjölda starfsmanna og að miðlarnir hafi starfað um tiltekinn tíma. Samstöðin hafi þannig ekki möguleika á að fá sambærilegan styrk og aðrir miðlar fyrr en 2025 sem gagnast ekki að ráði fyrr en rekstrarárið 2026. Jafnvel þótt stöðin fylli skilyrði um lágmarksfjölda starfsfólks.

„Svona er margt á Íslandi, einhver kerfi sem líta út fyrir að eiga að efla lýðræðið og almenning en sem vinna í raun þvert á þau markmið,“ segir Gunnar Smári. „Og þetta rann í gegnum Alþingi, styrkjakerfi sem í reynd styður og verndar stóra miðla gegn smáum, verndar fjölmiðla í eigu auðvaldsins fyrir grasrótarmiðlum á borð við Samstöðina. Ísland er brandari, svolítið súr.“

Gunnar Smári segir að fram að því að Samstöðin fái styrk eftir nokkur ár megi ætla að sambærilegur eldri miðill hefði fengið um 40-50 m.kr. frá ríkinu. „Þetta er holan sem Samstöðin þarf að vinna sig upp úr. Og hún er ekki tilkomin vegna þess að það er erfitt að búa til nýja fjölmiðla, sem það svo sannarlega er, heldur vegna þess að ríkisstjórnin hefur gert það enn erfiðara með því að skekkja samkeppnisstöðu lítilla og smærri miðla,“ segir hann.

Samstöðin er nú einnig útvarpsstöð, sendir út á fm 89,1. Útsendingar nást á höfuðborgarsvæðinu, út Reykjanesið, fram á Kambbrún, upp á Akranes, vestur á sunnanvert Snæfellsnes og víða um Borgarfjörð. Hægt er að ná í streymið á Spilaranum, bæði á Netinu og sem app. Á samstodin.is eru fréttir og skoðanagreinar, auk þess sem þar er hægt að nálgast sjónvarpsþætti. Þættirnir eru sendir út á Facebook og youtube og eru auk þess aðgengilegir á öllum hlaðvarpsveitum, bæði undir nafni hvers þáttar og undir Samstöðin, þar sem allir þættirnir safnast upp. Ef ekki væri fyrir okur fjarskiptafyrirtækja væri Samstöðin fyrir löngu komin í fjarstýringar við sjónvörp landsmanna.

Myndin er af kynningarspjaldi fyrir nýjasta þáttinn á Samstöðinni, sem kallast Synir Egils. Þar taka bræðurnir Sigurjón Magnús og Gunnar Smári Egilssyni á móti gestum og ræða helstu fréttir og pólitík. Í dag ræða þeir við Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrrverandi bæjarstjóra og þingmann, Ásgeir Brynjar Torfason sérfræðing í fjármálum og Marinó G. Njálsson tölvunarfræðing. Laufey Líndal Ólafsdóttir formaður Pepp, félags fólks í fátækt, flytur síðan pistil dagsins og í lokin taka þeir bræður Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra til yfirheyrslu um sjávarútvegsmál, hvalveiðar og sambúðina á stjórnarheimilinu.

Auk Sona Egils eru á dagskrá Samstöðvarinnar Rauður raunveruleiki, Vikuskammtur, Sósíalískir feministar, Sanna Reykjavík, Helgi-spjall, Ungliðaspjallið og Rauða borðið. Í vikunni sem er að enda sendi Samstöðin út um sautján og hálfan klukkutíma af nýrri samfélagsumræðu, um tvo og hálfan tíma á dag. Og á næstu vikum mun þáttum fjölga, enda er Samstöðin að taka í gagnið annað stúdíó og efla getu sína til að senda út fundi sem haldnir eru út í bæ. Þannig verður t.d. fundur Jeromy Corbyn í Landsbókasafninu sendur út á næsta laugardag, en Corbyn talar í fundarröð Ögmundar Jónassonar Til róttækar skoðunar.

„Fólk sem vill vera með þætti eða skrifa á samstodin.is ætti endilega að senda okkur skeyti á samstodin@samstodin.is,“ segir Gunnar Smári. Hann segir fólk geta lagt ýmislegt til, skrifað pistla eða fréttir frá tilteknum geirum eða svæðum, stjórnað þáttum eða framleitt efni. Samstöðin er líka opin fyrir félagasamtökum sem vilja halda úti eigin mynd-hlaðvarpi og nýta sér dreifikerfi Samstöðvarinnar.

„Fólk þarf hins vegar að hafa hugsjón, því Samstöðin er enn aðeins hálf-atvinnudeild. Þau sem ekki gefa vinnu sína fá lág laun og öll sömu launin. Það má ekki gleymast, að á móti framlagi áskrifenda leggur hópur fólks fram mikla vinnu fyrir lítil og stundum engin laun,“ segir Gunnar Smári. „Þetta er fólk sem finnst óendanlega mikilvægt að byggja upp fjölmiðil þar sem aðrar raddir óma en yfirgnæfa samfélagsumræðuna.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí