280 manns komu sjóleiðina til Kanaríeyja frá vesturströnd Afríku á þriðjudag, á einum opnum trébáti af gerðinni cayuco. Öll komust þau heil til hafnar. Farþegarnir voru 268 karlmenn, tvær konur og tíu börn. Þetta er mesti fjöldi fólks sem hefur siglt þessa leið á einum báti til þessa, að sögn fulltrúa Rauða krossins á eyjunum.
Alls komu yfir 500 manns siglandi þessa leið á þriðjudag, og segir í frétt The Guardian að smyglarar hafi nýtt sér veðurblíðuna þetta haust enda langt liðið frá hefðbundinni vertíð sumarmánaðanna. Þau sem ekki voru í fjölmenna bátnum eina voru í öðrum báti sem bar 79 manns, auk þess sem 127 var bjargað á hafi. Öll komu þau til hafnar á eynni El Hierro.
Um bátinn fjölmenna sagði Txema Santana, blaðamaður með sérhæfingu í umfjöllun um fólksflutninga og fyrrverandi ráðgjafi stjórnvalda á Kanaríeyjum, að hann þau væri heppin að hafa náð landi. „Þegar þau sjá hvað þau komust langt á korti munu þau ekki trúa því.“
Fólki sem siglir þessa leið og nær til hafnar hefur fjölgað um tæp 20% það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra. Opinber gögn segja að frá janúar til septemberloka þetta ár hafi 14.967 manns siglt þessa leið. Á sama tímabili er vitað til þess að 140 manns hafi látist eða horfið á leiðinni. Þó er áætlað að fjöldi látinna sé umtalsvert fleiri en staðfest hefur verið, og telja fulltrúar spænsku hjálparsamtakanna Caminando Fronteras að alls hafi hið minnsta 778 horfið eða látist á leiðinni yfir Atlantshaf á fyrstu sex mánuðum ársins.
Fjölgun þessara siglinga til Kanaríeyja er rakin til hertari stýringar á umferð um Miðjarðarhaf. Um þessar mundir er fjöldi þessara hættulegu sjóferða þó hvergi nærri því sem hann var árið 2006, þegar rætt var um cayuco-krísuna. Þá sigldu 36.000 manns frá Afríku og náðu til hafnar á Kanaríeyjum í trébátum, hliðstæðum við þá sem enn eru í umferð.
Heimild: The Guardian.