„Ég hef bókstaflega ekki séð eina manneskju verja Hamas, hvorki seinasta mánuðinn né á ævi minni ef út í það er farið! Ef einhver heldur að með því að tala fyrir friði fyrir börn sé ég að styðja Hamas þá leiðréttist það hér með, ókei?“
Svo hefst pistill sem Gunnar Jónsson skrifar og birtir á Facebook, en hann hefur farið víða. Gunnar segir að það sé orðið lýjandi að þurfa sífellt að fordæma Hamas í sömu andrá og menn finni að því að Ísraelsstjórn sé að stráfella börn. Hann bendir einnig á að það skjóti skökku við þegar fólk eins og Margrét Friðriksdóttir, ritstjóri Fréttarinnar.is, sem hafi aldrei verið hrifið af hinsegin fólki sé skyndilega mjög umhugað um réttindi þeirra í Mið-Austurlöndum.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Gunnars í heild sinni.
En ef þú vilt síðan ekki ræða þessi u.þ.b. 4000 börn sem Ísraelsher hefur myrt á innan við mánuði því þér finnst mikilvægara að neyða fólk til að fordæma Hamas í annarri hvorri setningu þá er það ÞINN málstaður sem er ankannalegur, ekki málstaður viðmælenda þíns.
Það getur verið svakalega lýjandi að umbera hriplek rök svona fólks á meðan börn deyja. Þetta eru ekki einhver ímynduð börn, sem deyja kannski einhvern tímann. Þau eru að deyja akkúrat núna! Akkúrat núna er hryllingurinn að eiga sér stað. Á sama tíma er kominn vetur í hjörtu íslendinga og fólk ekki alveg í stuði fyrir múslima og þeirra endalausu vandamál. Allir nema þau klókustu meðal vor leyfa menningarstríðinu að snúa siðferðisvitund sinni á hvolf. Og það litar allt. Og maður þarf eina ferðina enn að vera taktískur í því hvernig maður nálgast þessi hrímuðu hjörtu. Rétt eins og ég þurfti að undirbúa mig á tímum Íraksstríðsins fyrir setningar um hvernig fólk í Mið-Austurlöndum hataði frelsið mitt, lýðræðið og vildi jafnvel beita mig gereyðingavopnum.
Af hverju gerist það að þegar maður kýs að tala fyrir friði fyrir óbreytta Palestínubúa að maður er neyddur til að afsaka hluti sem maður sagði aldrei, verjast ásökunum um Gyðingahatur sem maður býr ekki yfir og bara almennt láta draga sig inn í umræður sem eru svo fullkomlega ótengdar friðarmálstaðnum að maður þarf að undirbúa sig undir þessar samræður eins og fyrir heimskustu Morfís keppni allra tíma?
Nei, ég ætla ekki að skauta yfir barnafjöldamorð því einhver ímyndaður arabi sem ÞÚ HEFUR ALDREI HITT ÞVÍ ÞÉR ER DRULLUSAMA er líklegur til að grýta homma, sem þér er líka sama um! Meira að segja Margrét Friðriksdóttir hjá Fréttinni.is hefur nú uppgötvað einhverja stórfurðulega (og satt best að segja, afar grunsamlega) ást á LGBTQ+ samfélaginu núna þegar hún getur notað það sem vopn til að þagga í fólki sem er annt um réttindi íbúa á Gaza svæðinu. Nýjustu fréttir: Við skiljum að heimurinn er flókinn, Margrét og co. Við getum samt líka hugsað, ólíkt þér!
Ég styð rétt barna til að halda lífi nógu lengi til að vera mögulega mötuð á menningarlegum gildum sem samræmast ekki mínum eigin. Réttur fólks til að gagnrýna önnur menningargildi og það að taka afstöðu með óbreyttum borgurum sem mega þola þjóðarmorð er TVÖ AÐSKILIN MÁL! HÆTTUM AÐ RUGLA ÞEIM SAMAN Í SAMRÆÐUM! ÞAÐ ER HEIMSKULEGT!
Það er ekki eðlilegt að búa í herkví. Það er ekki eðlilegt að rafmagnið sé tekið af húsinu þínu á hverjum einasta degi, meira að segja þegar það ríkir „friður“. Það er ekkert eðlilegt við það þegar konan þín deyr af barnsförum á leið sinni á sjúkrahús, við vegatálma sem ætti ekki að vera þarna! Það er ekki eðlilegt að réttlæta barnafjöldamorð á grundvelli þess að saklausir ísraelar dóu líka! Af hverju vegur dauði fámennari hóps þyngra en dauði fjölmennari hóps í hugum sumra? Hvaða ósögðu gildi eru að fokka svona rækilega í siðferðisáttavita þessa fólks?
Skilur það ekki að barn súnní múslima grætur eftir mömmu sinni á nákvæmlega sama hátt og kristið vestrænt barn gerir eða barn gyðinga? Mig er farið að gruna að svarið sé hreint og klárt „nei“. Grátur sumra berst illa að vestrænum eyrum og mér líkar það ekki og það eina sem ég virðist geta gert er að ranta yfir því á feisbúkk. Voilà!
Hamas er síðasti valmöguleiki fólks sem á sér engan annan málsvara. Þú myndir styðja Hamas í nákvæmlega sömu aðstæðum. „Ef þú værir þau, þá værirðu þau“ sagði einhver. Það er enginn að biðja fólk um að elska íslam eða hryðjuverk. Það er hinsvegar verið að krefja fólk um beisik réttlætiskennd.
Og ég er að krefja þig um að snarhætta að röfla um Hamas ef það er bókstaflega það eina sem þig langar til að tala um!