Íslensk heimili greiddu 12,3 milljarða króna í bein þjónustugjöld til fyrirtækja sem sinna greiðslumiðlun árið 2022. Þar af voru 6,5 milljarðar greiddir fyrir notkun innlendra greiðslumiðla innanlands og 5,8 milljarðar greiddir fyrir notkun innlendra greiðslumiðla erlendis. Stærsta fyrirtækið á greiðslumiðlunar markaðnum hér á landi er Rapyd, sem er í ísraelskri eigu. Stofnandi og forstjóri þess hefur lýst því að gjöreyða eigi íbúum á Gaza-ströndinni.
Seðlabanki Íslands birti í byrjun mánaðarins reglubundna skýrslu sína um kostnað við smágreiðslumiðlun. Í henni er lagt mat á þjónustugjöld og samfélagskostnað í smágreiðslumiðlun.
Í skýrslunni kemur fram að bein þjonustugjöld vegna smágreiðslumiðlunar júkust um 4,7 prósent frá fyrra ári. Óbein þjónustugjöld, það er að segja þau gjöld sem söluaðilar greiða til greiðslumiðlunar fyrirtækjanna og eru innheimt í gegnum vöruverð, námu um 14,4 milljörðum króna. Hækkuðu þau frá fyrra ári verulega, um 23,5 prósent að raunvirði.
Greiðslumiðlunarfyrirtæki innheimta prósentugjald af virði hverrar færslu sem greidd er með greiðslukorti. Það hefur í för með sér að þegar verðlag á vöru og þjónustu hækkar, hækkar jafnframt þau gjöld sem greiðslumiðlunarfyrirtækin fá í sinn hlut. Tekjur fyrirtækjanna hækka því með hækkandi verðlagi, og er sú hækkun bæði sótt í vasa neytenda og fyrirtækja sem nýta þjónustu greiðslumiðlunar fyrirtækjanna. Sem aftur hefur í för með sér að kostnaður fyrirtækja eykst. Þeim kostnaði er svo velt út í verðlag sem aftur eykur kostnað neytenda, sem aftur færir greiðslumiðlunar fyrirtækjunum meira fé, eins og um einhvers konar eilífðarvél sé að ræða.
Þá er fastur kostnaður í rekstri greiðslumiðlunar fyrirtækjanna alla jafna hátt hlutfall heildarkostnaðar, sem þýðir að eftir því sem færslum fjölgar minnkar kostnaður þeirra við hverja færslu. Sem aftur skilar sér í enn meiri hagnaði fyrir fyrirtækin.
Stærstu fyrirtækin í erlendri eigu
Áætlað er að hreinar tekjur fyrirtækja í greiðslumiðlun hafi numið 32,6 milljörðum króna árið 2022, og hækkuðu þær um 37 prósent að raunvirði milli ára. Er það einkum vegna þjónustugjalda á greiðslukortum. Um er að ræða viðskiptabankana íslensku og sparisjóðina í landinu, Teya (sem áður hét SaltPay), Rapyd/Valitor, Símans Pay, Handpoint, Western Union, Netgíró, Aur (í eigu Kviku Banka) og Kass (sem er hluti af Íslandsbanka).
Í skýrslu Seðlabankans er ekki að finna niðurbrot á hlutdeild hvers fyrirtækis fyrir sig á markaði en vitað er að Rapyd er umsvifamest. Tveir innlendir færsluhirðar sem eru milliliðir fyrir greiðslukortanotkun voru starfandi á íslenskum markaði árið 2022, fyrrnefnt Rapyd og Teya. Bæði félögin eru í erlendri eigu, Rapyd sem fyrr segir í ísraelskri eigu en Teya í brasilískri.
Ekki er vitað til þess að eigendur Teya hafi hvatt til þjóðarmorðs en það hefur stofnandi og forstjóri Rapyd gert. Á LinkedIn síðu sinni birti Arik Shtilman færslu þar sem sagði: „Við munum sigra. Rapyd styður Ísrael.“
Vísir greindi frá því í nóvember síðastliðnum að Tindur Hafsteinsson, fyrrverandi starfsmaður Rapyd, hefði gert athugasemd við þessa afstöðu alþjóðlegs stórfyrirtækis undir færslunni. Shtilman svaraði Tindi með þessum orðum: „Við munum drepa hvern einasta Hamas hryðjuverkamann á Gaza og eyða þeim.“ Hver sem kostnaðurinn af því verður, bætti Shtilman við.
Shtilman fjarlægði ummæli Tinds, en hann hefur hins vegar verið ötull við að deila áróðri til stuðnings árásarstríði Ísraels gegn Palestínumönnum.
Kallað eftir sniðgöngu
Afstaða Shtilmans fór ansi hreint öfugt ofan í vel flesta Íslendinga. Kallað var eftir sniðgöngu á viðskiptum við Rapyd og sett var í loftið heimasíða, Hirðir.is, þar sem hægt er að leita eftir því hvaða fyrirtæki eru í viðskiptum við Rapyd. Rauði krossinn á Íslandi færði þannig viðskipti sín annað. IKEA hætti viðskiptum við Rapyd og færði þau yfir til Teya, en forsvarsmenn verslunarinnar sögðu þó að ekki hefðu legið pólitískar ástæður þar að baki.
Í gildi er rammasamningur milli Ríkiskaupa og Rapyd, sem upphaflega var gerður við Valitor áður en Rapyd tók fyrirtækið yfir. Samningurinn rennur út eftir tæpan hálfan mánuð. Í frétt Heimildarinnar frá 23. janúar síðastliðnum kemur fram að forstjóri Ríkiskaupa, Sara Lind Guðbergsdóttir, hafi svarað fyrirspurn frá fjölmiðlinum þannig að ekki lægi fyrir hvort heimild til framlengingar á samningnum yrði nýtt eða hann boðinn út að nýju.
Á annað hundrað fyrirtæki yfirgefið Rapyd
Inni á síðunni Hirðir.is má sem fyrr segir sjá lista yfir þau fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Rapyd. Þar má jafnframt sjá fyrirtæki sem hafa hætt viðskiptum við greiðslumiðlunina, eða eru í því ferli. Á síðunni kemur ekki fram af hvaða ástæðum fyrirtækin hafa skipt um greiðslumiðlun en ætla má að ástæðan sé í yfirgnæfandi meirihluta eignarhald Rapyd og afstaða Shtilmans.
Samkvæmt síðunni hafa yfir eitt hundrað fyrirtæki hætt viðskiptum við Rapyd síðan vefsíðan fór í loftið. Meðal þeirra eru mjög stór fyrirtæki á borð við Strætó, Orku náttúrunnar, Icelandair, JYSK, N1, Lyf og heilsa, Elko og Krónan. Þá hafa félagasamtök á borð við Landsbjörgu, Samtökin ‘78, og SOS Barnaþorp einnig hætt viðskiptum við Rapyd. Þá eru á fimmta tug fyrirtækja í því ferli að skipta um greiðslumiðlun og færa sig frá Rapyd. Meðal þeirra eru Skatturinn, Byko og Þjóðleikhúsið, en Borgarleikhúsið hefur þegar fært viðskipti sín.