Blekkingin um plastendurvinnsluna – Logið að neytendum áratugum saman

Plastframleiðendur hafa vitað í yfir þrjá áratugi að endurvinnsla á plasti er ill framkvæmanleg lausn til að meðhöndla plastúrgang. Bæði á það við sé horft til efnahagslegra þátta en eins tæknilegra. Þrátt fyrir það hafa hinir sömu framleiðendur kynnt endurvinnslu sem fullkomlega raunhæfa og gerlega. 

Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu sem unnin var af Center for Climate Integrity (CCI) og var birt fyrir skemmstu. Í skýrslunni, sem ber heitið Blekkingin um plastendurvinnslu, segir fullum fetum að olíuiðnaðurinn og plastiðnaðurinn hafi áratugum saman blekkt almenning og valdið stórkostlegri krísu þegar kemur að plastúrgangi með því. Skýrslan fjallar um plastiðnaðinn í Bandaríkjunum en engin ástæða er til að ætla að nokkuð annað sé upp á teningunum annars staðar.

Þekkt er hversu erfitt er að endurvinna plast. Til þess þarf að flokka úrgang af nákvæmni, þar eð þúsundir mismunandi tegunda eru til af plasti og fæstar þessara tegunda er hægt að endurvinna saman. Það gerir endurvinnsluna bæði tæknilega mjög erfiða en ekki síður afar kostnaðarsama. Þá er alla jafna ekki hægt að endurvinna plast nema einu sinni, hugsanlega tvisvar sinnum. Þannig er plast til að mynda gjörólíkt til að mynda áli sem hægt er að endurvinna svo til endalaust. 

Lög hafi verið brotin

Þetta hefur iðnaðinum verið vel ljóst en engu að síður hefur hver markaðsherferðin af annarri verið keyrð áfram þar sem, að því er segir í skýrslunni, ryki hefur verið slegið í augu neytenda. Í skýrslunni er sýnt fram á að stjórnendur innan plastiðnaðarins hafi ítrekað talað á þeim nótum að plastendurvinnsla sé ekki arðbær og geti ekki talist varanleg lausn í úrgangsmálum. 

Þá er því haldið fram í skýrslunni að sönnunargögn séu til staðar sem sýni að olíu- og efnafyrirtæki hafi, ásamt viðskiptafélögum, brotið lög sem vernda eiga neytendur fyrir misvísandi og rangri upplýsingagjöf, sem og lög er varða mengun og úrgang. 

Frá því um miðja síðustu öld hafa plast framleiðendur lagt mikla áherslu á framleiðslu einnota plastvöru, í því skyni að auka sölu. Í skýrslunni er vitnað til þess að þegar árið 1956 hafi Samtök plastframleiðenda í Bandaríkjunum hvatt framleiðendur til að einblína á ódýra framleiðslu í miklu magni, og að markmiðið ætti að vera að vörurnar myndu enda sem úrgangur. Því var almenningi talin trú um það næstu áratugi að plasti mætti án vandkvæða henda í landfyllingu eða brenna það án nokkurra afleiðinga. 

Það var ekki fyrr en á níunda áratugnum, þegar umhverfisvitund almennings og opinberra aðila hafði vaknað og byrjað var að tala á þeim nótum að banna ætti innkaupapoka úr plasti sem og aðrar plastvörur, að iðnaðurinn hóf að kynna nýja lausn, sem sagt endurvinnslu. 

Lygar og blekkingar

En strax á þeim tíma var plastiðnaðinum fullkunnugt um að áskoranir varðandi endurvinnslu væru slíkar að ekki væri um neina lausn að ræða. Í innanhússkýrslu Samtaka plastframleiðenda frá árinu 1986 kemur þessi vitneskja augljóslega fram en þar er beinlínis sagt að endurvinnsla sé ekki varanleg lausn þar eða það eina sem hún hafi í för með sér sé að lengja tímann þar til farga þurfi plastefni. Engu að siður hafi Samtök plastframleiðenda sett á fót Plastendurvinnslu samtökin og hrundið af stað herferð varðandi endurvinnslu. 

Meðal þess sem þau samtök gerðu var að markaðssetja örvaþríhyrninginn, endurvinnslumerkið sem notað hefur verið á plast til að sýna að það sé endurvinnanlegt. Sérfræðingar hafa alla tíð bent á að merkið sé mjög misvísandi. Þá hefur iðnaðurinn sett á flot hverja herferðina á fætur annarri, meðal annars um að endurunnar plastflöskur geti orðið að nýjum plastflöskum, aftur og aftur. 

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að með því að hafa „blekkt neytendur, stefnumótendur og eftirlitsaðila varðandi hagkvæmni plastendurvinnslu hafa olíuefnafyrirtækin tryggt áframhaldandi aukningu plastframleiðslu, sem veldur auknum plastúrgangi og mengunarkrísu í samfélögum um allt landið“. Kostnaðurinn vegna þessa lendi að stærstum hluta á hinu opinbera og mun bara aukast. 

„Ef ekki væri fyrir lygar og blekkingar olíuiðnaðarins og plastiðnaðarins hefði hið opinbera ekki þurft að fjárfesta í plastendurvinnslu og verksmiðjum, sem margar hverjar hafa lokað vegna fyrisjáanlegs tapreksturs þeirra,“ segir enn fremur í skýrslunni. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí