Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hélt kynningarfund í gær um áform sín um að afsala náttúruauðlindum sveitarfélagsins í formi jarðvarma til einkarekna fyrirtækisins HS Orku til næstu 65 ára.
Ákvörðunin var endanlega samþykkt með samningsgerð 5. júní síðastliðinn en með honum hefur HS Orka auðlindanýtingarrétt af jarðvarmasvæðinu í Krýsuvík í vel rúmlega hálfa öld. Ber fyrirtækinu samkvæmt samningnum að greiða sveitarfélaginu 6% af tekjum auðlindavinnslunnar auk fasteignagjalda og lóðaleigu, sem og 300 milljóna króna fyrirframgreiðslu fyrir heila klabbið.
Hagnaður fyrirtækisins af jarðvarmavinnslu í Krýsuvík gæti hæglega runnið á tugum milljarða króna á 65 árum. Kaupverð á 300 milljónir króna og 6% af tekjum hlýtur því að teljast ansi vel sloppið fyrir HS Orku.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar er skipuð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar svo að einkavæðing auðlinda ætti kannski ekki að koma svo mikið á óvart.
Það væri í raun ekkert athugavert fyrir sveitarfélag að fá aðstoð frá aðila sem sé vel að sér í orkuvinnslu, en stærri spurning sem mætti þá velta fyrir sér er hvers vegna í ósköpunum jarðvarmavinnsla á Íslandi sé í höndum einkafyrirtækis en ekki hins opinbera. Því einkaframtakinu fylgir auðvitað hagnaðar- og arðsemiskrafa sem á ekki vel við nýtingu lífsnauðsynlegra auðlinda fyrir samfélagið, ekki frekar en það væri fásinna að hafa einkavætt drykkjarvatn eða súrefni til innöndunar.
Svarið er í raun einfalt, kröfur hins bjúrókratíska kapítalisma sem við lifum öll og hrærumst í varð til þess að opinberum orkuinnviðum Hitaveitu Suðurnesja, sem var í sameign sex sveitarfélaga, var skipt í tvo einkarekin hlutafélög. Nánar tiltekið lagasetning á Alþingi árið 2008 sem skyldaði þessu opinbera félagi að einkavæðast.
Enn er til opinber stofnun sem annast raforkuframleiðslu á Íslandi, Landsvirkjun, en einhvern tímann kann sá tími að koma að sú stofnun verði einkavædd, eins og Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, varaði ítrekað við í kosningabaráttu sinni nýverið.