Halla Tómasdóttir, tilvonandi forseti Íslands, var til viðtals í þætti Christiane Amanpour á CNN í gær. Til umræðu var ástandið í Bandaríkjunum og bandarískri stjórnmálamenningu eftir morðtilræðið gegn Donald Trump.
Halla kallaði eftir jákvæðari stjórnmálum og að leiðtogum bæri skylda til að vera fyrirmyndir í þeim efnum, að lægja ófriðaröldur frekar en að kynda undir þær. Hún sagði stríðið sem Bandaríkjamenn stæðu í gegn sjálfum sér vera raunveruleg og stærsta ógnin við heiminn og vísaði þar í áhættumat Eurasia Group, sem taldi innanlandsdeilur Bandaríkjamanna eina helstu ógn við heimsfrið.
Halla fordæmdi morðtilræðið og sendi samúðarkveðjur til fjölskyldu fórnarlambsins sem lést.
Annars einblíndi hún á mátt þess að hafa jákvæðar fyrirmyndir og ímyndir, þar á meðal stöðu kvenna á Íslandi sem fyrirmynd fyrir heiminn og þau miklu jákvæðu áhrif sem kvennafrídagurinn 1977 og kjör Vigdísar Finnbogadóttur höfðu á hana sjálfa sem barn. „Það er besta dæmið um samstöðu og hugrakka forystu sem ég hef séð“, sagði Halla um Kvennafrídaginn. „Það sem ég lærði persónulega þann dag er að þegar að við stöndum saman, í sameiningu, á friðsamlegan hátt og með gleði og systraskap þá getum við raunverulega breytt heiminum.“
Halla mun taka við embætti forseta Íslands 1. ágúst næstkomandi.