Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni, veltir fyrir sér hvort girnileg tilboð eigi sér nú stað á bak við tjöldin, þar sem boðið sé í fulltrúa flokkanna þriggja sem eru í ríkisstjórnarviðræðum. Í því skyni að eyðileggja fyrirhugað samstarf Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins.
Alexandra Briem pírati bendir á það á facebook að ýmsir valdakarlar fari nú mikinn. Hún segir að þótt hún hafi ekki sjálf kosið neinn af flokkunum þremur sem nú séu að reyna að koma saman stjórn sé þetta „sennilega besta meirihlutamynstrið sem niðurstöður kosninga buðu upp á,“ eins og hún orðar það.
„En jákvæðasta teiknið á lofti um þetta samstarf er óneitanlega hvað íhaldssömustu og súrustu kallarnir, eins og ritstjórn Morgunblaðsins, ritstjórn Viðskiptablaðsins og þingmenn Miðflokksins eru ofboðslega neikvæðir og fúlir yfir þessum möguleika, finna samstarfinu allt til foráttu og fabúlera um það hvað það hljóti að ganga ómögulega að ná saman og endast stutt þó svo fari,“ segir Alexandra.
Þórdís Lóa borgarfulltrúi Viðreisnar deilir í athugasemd við færslu Alexöndru reynslu frá meirihlutaviðræðum vorið 2018, „þegar sömu aðilar ætluðu ekki að trúa sínum eigin eyrum og augum með að við fórum í meirihlutaviðræður við Pírata, Samfó og VG“ líkt og Þórdís Lóa orðar það.
„Vonbrigðin voru slík að sumir hafa ekki enn fyrirgefið okkur,“ upplýsir Þórdís Lóa.
„Fyndnast fannst mér vantrúin á að þetta gæti ekki verið að gerast. Mennirnir sendir út á akurinn að ræða við mennina um að tala um fyrir mér,“ segir hún og bætir við: „Það var setið fyrir mér á förnum vegi og ég þrábeðin um að halda ekki samningaviðræðum áfram og ýmislegt girnilegt boðið ef ég hætti við. Ætli það séu plott í gangi um að fá eina þeirra til að henda sér af vagninum?“ Spyr Þórdís Lóa.