Þingflokksformaður Flokks fólksins Guðmundur Ingi Kristinsson, segir neyðarástand ríkja í íslenska heilbrigðiskerfinu og hefur hann óskað eftir fundi með velferðarnefnd Alþingis. Guðmundur segir ástandið sem sé ítrekað neyðarástand vera grafalvarlegt og að það bitni á sjúklingum. Hann fer fram á að stjórn Landspítalans komi fyrir velferðarnefnd og gefi skýrslu um stöðu mála. Stutt er síðan heilbrigðisráðherra fundaði með stjórn spítalans og milli jóla og nýárs var opnuð ný legudeild í tilraun til að bregðast við vanda bráðadeildarinnar. Enn er þó verið að auglýsa störf svo hægt sé að manna hana en á sama tíma halda læknar og hjúkrunarfólk áfram að segja upp störfum á bráðamóttökunni og alvarleg atvik eiga sér þar stað.
Eggert Eyjólfsson fyrrum læknir á bráðamóttöku hefur tjáð sig reglulega á samfélagsmiðlum um ástandið á Landspítalanum en hann sagði upp störfum þar í september s.l. Hann er ekki eini læknirinn sem segir upp störfum þar nýlega vegna álags. Eggert birti færslu á FB um það leyti sem hann sagði upp störfum en þar segir hann:
„Það er stundum sagt að hlutfall af vergri landsframleiðslu veiti ekki rétta mynd af útgjöldum. Hún er nokkuð breytileg milli ára og veltur á alls konar breytum eins og veðri, ytri mörkuðum, stríði og heimsfaraldri osfrv. OECD gefur út eyðslu ríkja í heilbrigðismál í beinhörðum peningum. Þar sitjum við, velmegunarþjóðin, ansi aftarlega á merinni.
Árið 2020 eyddum við $4620 í heilbrigðisþjónustu. Við vorum í 17.sæti á lista OECD. Sama ár eyddi Noregur $6536. Það munar rúmlega 40%. Sviss eyddi $7178. Munurinn er 55%.Það er dýrt að lifa á Íslandi. Árið 2021 vorum við í öðru sæti á lista OECD yfir dýrustu löndin, á eftir Sviss. Ef við setjum okkur það markmið að komast upp að hlið Noregs, þá þurfum við að bæta í sem nemur 40% – rúmlega 120 milljörðum (m.v. 315 milljarða útgjöld í fyrra)”.
Þá segir hann að einnig þurfi að endurnýja fleiri sjúkrahús en LSH, hjúkrunar og endurhæfingarúrræði, uppbyggingu heilsugæslu og annarra úrræða utan spítala sem reikna þurfi fyrir utan umrætt rekstrarfé. “Við þurfum að taka þá sameiginlegu afstöðu að eyða peningum í það sem skiptir máli. Við getum ekki búist við að fá eða geta veitt fyrsta flokks þjónustu þegar tölfræðin er ekki betri en raun ber vitni” segir Eggert og bætir við “Svo er allt önnur umræða hvernig efnahagsstjórn (eða óstjórn) er og hefur verið hér á landi undanfarna áratugi – menn eru enn að baksa við að reka þetta batterí á sama prinsippi og 1980. Verðbólgudraugurinn, tryggjum stöðugleika, passa sig að borga konum ekki há laun því þá gæti ríkisskútan sokkið. Kommon. Wake up and smell the coffee (or the fish) – það þarf að rukka fyrir þennan helvítis fisk!”
Í gær birti Eggert færslu á Facebook þar sem hann skýrir út ástæðu uppsagnar sinnar á bráðamóttöku. Hann segir engum hollt að starfa í því umhverfi sem fólki sé þar búið og því síður að sækja þangað þjónustu. Eggert segir: „Á bráðamóttöku Landspítala starfar gríðarlega duglegt, ósérhlífið og fært fólk í öllum stöðum. Vanvirðingin sem þessu fólki er sýnd af hálfu yfirvalda og á stundum stjórnenda Landspítala er ólýsanleg og ég gat ekki meir”.
Í viðtali við RUV segist hann ekki hafa tölu á þeim fjölda hjúkrunarfræðinga sem hafa hætt störfum og sérfræðilæknum sem ábyrgir voru fyrir læknisfræðilegri starfsemi bráðamóttökunnar hafi fækkað um alla vega sex. Þetta hafi það í för með sér að ekki sé hægt að manna vaktir.
„Þannig að ég held að það séu allir sammála um það að öryggi sjúklinga sé ógnað og það er ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga á bráðamóttökunni eins og staðan er í dag. Okkar samskipti við sjúklinga fara í síauknum mæli fram úti á gangi fyrir framan aðra sjúklinga, annað starfsfólk, jafnvel ættingja annarra sjúklinga. Við erum að tala við sjúklinga um mjög viðkvæm málefni oft. Það sem þetta ýtir undir er að þær upplýsingar sem við getum fengið frá sjúklingnum verða örugglega takmarkaðri en ella vegna þess að fólk gerir sér grein fyrir því að það er úti á gangi að viðra sín persónulegu mál. Sömuleiðis er mjög erfitt að skoða sjúklinga við þessar aðstæður. Ef maður þyrfti að hlusta lungu eða skoða kvið á sjúklingi. Það eru ekkert allir tilbúnir að fletta upp um sig úti á gangi fyrir framan tíu manns,“ segir Eggert.
Theódór Skúli Sigurðsson formaður Félag sjúkrahúslækna segir einnig í viðtali við RUV í dag að þó svo að fjárveitingar til spítalans hafi aukist muni taka marga mánuði að ráða og þjálfa upp starfsfólk eftir þessar fjölmörgu uppsagnir. Ástæður uppsagnanna séu álag.
„Og þetta eru skörð sem er mjög erfitt að fylla upp í. Bæði hvað varðar bráðalæknana og hjúkrunarfræðingana. Mikil reynsla sem hverfur þarna. Þannig þetta er gríðarleg blóðtaka fyrir starfsemi bráðamóttökunnar,“ segir Theódór Skúli.
Starfsfólk Landspítalans sendi frá sér neyðarkall milli jóla og nýárs vegna ástandsins þar en mikið hefur einnig verið um umgangspestir og formaður Læknafélags Íslands sagði ástandið verra en nokkru sinni áður.
Atvikum sem hafa verið tilkynnt til Landlæknis sem alvarlegum atvikum hefur fjölgað á síðasta ári samkvæmt embættinu en eitt slíkt kom upp núna milli jóla og nýárs. Tæplega sextugur karlmaður lést eftir að hafa verið útskrifaður af bráðamóttökunni og hefur atvikið verið tilkynnt bæði Landlækni og lögreglu.
Björn Zoëga formaður stjórnar Landspítala sagði fyrr í vikunni að þetta væri ekki spurning um peninga, því spítalinn væri vel fjármagnaður. Hann segir það þurfi að einfalda skipulag og draga úr yfirbyggingu. Theódór Skúli segir það þá náttúrulega vera ákveðnar gleðifréttir að stjórnarformaður Landspítalans telji að það sé loksins búið að fjármagna spítalann en það breytir því ekki að mönnunarvandamálin séu uppsafnaður vandi, áratuga vandi. „Og það verður ekki leyst á einni nóttu,“ segir hann jafnframt.
Páll Torfi Önundarson læknir á landspítalanum skrifar einnig færslu á FB það sem hann segir vanda „bráðamóttökunnar“ á LSH vera bara þann hluti ísjakans sem sjáist. „Það er minnsti hlutinn. Vandinn er sá að sjúklingarnir komast ekki af bráðamóttökunni inn á legudeildir því þær eru ekki til og/eða illa mannaðar. Það duga engar bráðabirgðalausnir. Það er mikill misskilningur að bráðalæknar eigi að ráða við allt. Það gera þeir ekki frekar en aðrir læknar, sem eru mjög sérhæfðir. Sjúklingar með bráðahvítblæði, gallsteina, nýrnabilun, hjartasjúkdóma, lungnabólgu, covid eru beinlínis í hættu ef þeir dvelja lengi á bráðamóttöku; meðferð slíkra sjúklinga er betri og öruggari annars staðar. Bráðamóttakan „tekur á móti“, veitir fyrstu hjálp og sorterar sjúklinga – en vandinn er að næsta stigið, viðunandi legudeildir, er ekki til staðar. Hættið að tala um að leysa vanda bráðamóttökunnar. Talið um að leysa vanda lækninga, hjúkrunar og ekki síst sjúklinga sem liggja á röngum stað. Talið um vanda afa og ömmu, föður og móður osfrv. Og snúið ykkur til stjórnmálamannanna, sem bera ábyrgð á þessu ástandi langt aftur í tímann, ekki bara síðan eftir „hrun“ heldur a.m.k. 15 árum lengur.