Reykjalundur og Landspítali hafa einkum sinnt þeim sem þjást af eftirköstum sýkingar af völdum COVID-19. Þetta segir Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður landlæknis.
Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfari gagnrýndi heilbrigðisyfirvöld í viðtali við Samstöðina á dögunum. Gunnar þjáist af langcovid og sagði að heilbrigðisyfirvöld sinntu langt í frá öllum sem væru með mjög skert lífsgæði vegna langtímaáhrifa sjúkdómsins. Hann sagði um 3.000 manna hópi á Íslandi ekki sinnt sem skyldi. Gagnrýni á landlækni kom til umræðu sem og aðrar heilbrigðisstofnanir og gagnrýndi Gunnar svaraleysi hins opinbera við fyrirspurnum sjúklinga.
„Embætti landlæknis hvorki veitir heilbrigðisþjónustu né skipuleggur hana. Hlutverk embættisins er að hafa eftirlit með veitingu heilbrigðisþjónustu hér á landi,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson.
Hann segir að hafi fólk athugasemdir við þá þjónustu sem það fær í tengslum við veikindi sín þá sé hægt að upplýsa embættið um það með með því skila inn athugasemd eða kvörtun.
Kjartan Hreinn segir að athugun í málaskrá embættisins gefi ekki til kynna að margir hafi leitað til embættisins vegna eftirkasta af sýkingu af völdum COVID-19.
Hér má finna almennar upplýsingar um skipulag þjónustu við sjúklinga með langdregin einkenni eftir COVID-19 sýkingu: Veikindi eftir Covid-19
Og hér er viðtalið við Gunnar Svanbergsson.