Óhætt er að segja að frásögn Gunnars Svanbergssonar sjúkraþjálfara á Samstöðinni í gærkvöld hafi vakið athygli.
Gunnar rakti persónulegar raunir sínar eftir að hann missti heilsuna vegna Covid 19 fyrir nokkrum árum. Hann heldur því fram að þúsundir Íslendinga þjáist af alvarlegum eftirköstum, sem stundum eru kölluð long-covid eða langcovid. Þessi stóri hópur fær litla sem enga athygli hvað þá umönnun í íslenska heilbrigðiskerfinu að sögn Gunnars.
Samstöðin hefur sent fyrispurn á landlækni og boðið fulltrúum embættisins að svara gagnrýnum spurningum um meint skeytingarleysi embættisins.
Þá hafa nokkrir Íslendingar sem segjast með long-covid sett sig í samband við Samstöðina eða tjáð sig á samfélagsmiðlum eftir sýningu viðtalsins við Gunnar.
Þorgerður Pálsdóttir, aðstandandi manneskju sem glímir við langcovid, segir mjög mikilvægt að vekja athygli á þessum sjúkdómi og „aðgerðarleysinu í heilbrigðiskerfinu gagnvart sjúklingum“ með langtíma covid eða ME eins og hún kallar það:
„Skilningsleysið og fordómarnir í heilbrigðiskerfinu hafa verið hræðilegir,“ segir Þorgerður.
Sjá allt viðtalið við Gunnar Svanbergsson hér: