„Að vakna nú í morgunsárið. Einhverjum hefur liðið illa og fundið hjá sér þörf til að skemma fallega regnbogann,“ skrifaði Óttar Makuch á X, áður twitter, í morgun, við myndir sem hann birti þar af skemmdarverkinu sem unnið var á regnboganum sem málaður hefur verið eftir götunni allt frá árinu 2015. „En sem betur fer eru litir regnbogans sterkari en skemmtaverkið,“ bætti hann við. „Vildi óska að viðkomandi fengi viðeigandi aðstoð ❤️ mikið vona ég að RVK hreinsi í dag.“ – Óttari og fjölda annarra varð að ósk sinni, þegar um hádegisbil, þegar þrifin hófust.
Samstöðin greindi frá atvikinu nú á sunnudagsmorgun. Þegar fyrir hádegi hafði fjöldi fólks brugðist við skemmdarverkinu með samstöðuyfirlýsingum á samfélagsmiðlum. „Hvað er að fólki sem gerir svona? Þetta er ömurlegt“ skrifar maður að nafni Tómas við færslu Óttars. „Úff sumir eiga bátt“ skrifar Kristinn. „Þetta er með þvi ömurlegra sem eg hef séð. Vonandi fæst viðeigandi aðstoð svo gerandinn finni frið,“ segir Ásmundur nokkur. „Ömurlegt“ bætir notandinn @eggertamarkan við. Og Þór segir: „Það hljóta að vera einhverjar myndavélar þarna í búðunum sem hafa náð einhverju. Djöfulls aumingjar“
„Fjölbreytileikafælinn fábjáni lætur til sín taka í skjóli nætur“
Dr. Gunni deilir myndum af skemmdarverkinu á Facebook og skrifar við: „Fjölbreytileikafælinn fábjáni lætur til sín taka í skjóli nætur.“ Undir má lesa, svo tekin séu saman einföld ummæli fjölda notenda: Hálfvitar! Oj. Glatað. Sorglegt. Jahérna … Magnús Nokkur skrifar: „Djöfull ömurlegt … Þegar og ef í þessa aumingja næst, ætti að flengja þá á almannafæri sem forðum var gert og setja í gapastokk!“ „Vesalingur“ skrifar Sigurjón og „Litlar sálir sem þrá einsleitni“ skrifar Sigmundur Ernir og bætir við ælukalli: „🤮“.
Frétt Samstöðvarinnar var deilt á Facebook með spurningu um hvort öfgahægrið sé að skjóta rótum á Íslandi. Við þá færslu skrifar Júlíana: „Einhverjir telja sig æðri öðrum,“ Stefán segir einfaldlega: „Smásálir“. Guðrún Gísladóttir bætir við: „Rætur öfgahægrisins hafa lengi dafnað á Íslandi. Að halda annað er einfeldni.“
„Sárt þegar að fólk hatar“
Við frétt Vísis um málið spyr Arna Rut: „Afhverju hatar fólk okkur fyrir eitthvað sem að við ráðum ekki við? Afhverju megum við ekki bara vera við sjálf, bara vera til, án þess að það sé ráðist á okkur?“ Hún bætir við: „Það er sárt þegar að fólk hatar, og ég meina hatar, þig þótt að það þekki þig ekki neitt. 😓 Ég elska að vera eins og ég er – að falla frekar fyrir persónuleika heldur en kyni. Mér finnst það fallegt.“
Og Unnar nokkur tekur í sama streng og Þór gerði að ofan, spyr um myndavélar: „Nóg af myndavélum þarna sem ættu að hjálpa til við að njörva niður gerð á bíl með glænýjan umgang, eða hvít dekk. Svo er hægt að fá eigendur þeirrar bifreiðar til að mála þetta upp aftur, á eigin kostnað, sem einhverskonar samfélagssekt fyrir hegðun sína, eða barna þeirra sem eru enn á þeirra ábyrgð – eða ættu allavegna að vera það miðað við félagsleg þroskamörk.“