„Til stendur að brottvísa, meðal annarra, einstæðri 8 barna móðir frá Palestínu til Spánar kl. 9:00 í fyrramálið. Tvö barnanna eru orðin 18 ára, m.a. ung kona með þroskahömlun sem þarf töluverða aðstoð. Þá er eitt yngri barnanna flogaveikt og annað nýkomið úr aðgerð. Móðirin er sjálf að fást við nýrnasteina sem ég þekki af eigin raun og veldur miklum sársauka, oftast svo miklum að man er óvinnufær,“ skrifar Freyja Haraldsdóttir réttindagæslumaður fatlaðs fólks og er talskona Tabú, á Facebooksíðu sína.
„Við erum pínulítil rík eyja þjökuð af einsleitni og við getum bara alveg ákveðið að veita fleira jaðarsettu fólki vernd. Á því dafnar þessi eyja bara enn betur,“ skrifar Freyja. „Þó að tíminn sé naumur er alveg hægt að koma í veg fyrir þessa martröð ennþá. Fjöldi fólks kemur að brottvísunum og legg ég til að það neiti að taka þátt í þessu. Og ef það þorir ekki að andæfa þessari martröð sem það verður virkir gerendur í að hringja sig bara inn veikan. Taka hópveikindadag.“
„Getum við svo einhverntíman bara hætt að kjósa alltaf í umvörpum ógeðsleg stjórnmál yfir okkur?“ spyr hún svo. Og svarar sjálf: „Ég held það sé alveg hægt.“
Freyja bendir á að Ísland hafu undirritað og fullgilt samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks en í 6. grein er sérstaklega kveðið á um vernd fatlaðra kvenna:
- Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur verða fyrir fjölþættri mismunun og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.
- Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fullu þróun, framgang og valdeflingu kvenna í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og grundvallarfrelsis sem samningur þessi kveður á um.
Og í 7. gr. samningsins segir:
- Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.
- Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.
Þá segir í 11. grein:
- Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.
„Það eru margvísleg önnur alþjóðalög og samningar sem kveða á um sérstaka vernd fatlaðs fólks á flótta. Fatlað fólk, einkum konur og börn, eru sérstaklega útsett fyrir ofbeldi, mismunun og ómannúðlegri meðferð almennt og eykst það í veldisvexti þegar það er á flótta,“ skrifar Freyja.
Og Freyja telur upp aðstæður fjölskyldunnar
- Móðir veik (verkir vegna nýrnasteina eru á sama skala og hríðir. Oft þarfnast þeir læknismeðferða)
- Ung kona með þroskahömlun (þarf mikinn stuðning í daglegu lífi)
- Flogaveikt barn (þarf að hafa öruggan aðgang að lyfjum og er enn útsettari fyrir flogum í svefnleysi og álagi)
- Barn nýkomið úr aðgerð (þarf öryggi, heilsusamlegt umhverfi og eftirlit)
- Önnur börn sem eru útsettari fyrir hættu af því þau eru börn á flótta og eru að fást við að vera send út í hættur, óvissu og öryggisleysi ásamt veikri mömmu og systkinum sem þurfa mikinn stuðning.
„Stjórnvöld eru að taka þessar ákvarðanir um líf fólks. Barna. Sem er jaðarsett. Ákvarðanirnar sem þau taka skera úr um möguleika fólks til lífs og öryggis. Stjórnvöld og opinberar stofnanir eins og Útlendingastofnun gera mikið af því að taka andstyggilegar ákvarðanir þegar þau geta tekið mannúðlegar ákvarðanir. Þau velja á hverjum degi að valda fólki skaða. Spáiði í því að hafa það að atvinnu sinni? Að meiða fólk?“ spyr Freyja.
Og Freyja segir að rökin þau sömu alltaf þau sömu og alltaf jafn léleg:
- ,,Við getum ekki bjargað öllum”
- ,,Það er svo kostnaðarsamt að taka á móti fólki á flótta”
- ,,Við þurfum fyrst að hugsa um okkur, íslenskt fatlað fólk og eldri borgara”
- ,,Þetta fólk reddar sér alveg annars staðar”
„Það er enginn að biðja um að öllum sé bjargað því það eru bara alls ekki öll á flótta sem koma hingað til lands,“ skrifar Freyja. „Svo þar fljúga þau rök. Rök um kostnað eru í fyrsta lagi klisja sem forréttindafólk í valdastöðu sem býr við (of)vernd notar til þess að staðhæfa óbeint (eða beint) að eigin verðmæti eru meiri en fólks sem leitar hér að vernd. Svo vitum við alveg að ef rannsóknir eru skoðaðar að þá er alltaf dýrara að valda fólki skaða en að uppfylla og tryggja þarfir þess. Það er dýrt að vera andstyggileg. Við erum og höfum alltaf hugsað illa um fatlað fólk og eldra fólk, óháð fjölda fólks sem leitar að vernd, svo það að nota okkur sem rasíska þjóðrembuhækju er algjör rökleysa. Fyrir utan það að þau sem þekkja eitthvað til mannréttinda og baráttu fyrir réttlæti vita að jaðarsettir hópar eru ekki ógn hvert við annað heldur frelsandi afl og stuðningur. Fólk í leit að vernd, sérstaklega fatlað fólk, reddar sér bara alls ekki mjög víða og á flestum stöðum sem verið er að senda fólk à núna er staða fatlaðs fólks í leit að vernd hættuleg.“