Hatrið mun sigra í Laugardalshöll

Skoðun Gunnar Smári Egilsson 5. nóv 2022

Það lýsir vel stöðunni á Sjálfstæðisflokki Bjarna Benediktssonar að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra bauð upp á einskonar upphitun fyrir fundinn með handtöku fimmtán flóttamanna sem voru síðan fluttir með ofbeldi úr land. Meðal þeirra voru börn og fatlaður maður í hjólastól. Bjarna og Jóni fannst þetta gefa rétta stemminguna fyrir fundinn, að sýna járnhnefa flokksins, hverja hann vill berja og hversu fast. Í setningarræðu sinni bað Bjarni landsfundargesti að klappa fyrir Jóni, sem Bjarni sagði að hefði þurft að bregðast við gríðarlega krefjandi stöðu í hælisleitendamálum. Og gestirnir svöruðu með löngu dynjandi lófataki.

Jón lýgur að fólki

Jón hefur farið hamförum í haust við að lýsa þeirri hættu sem þjóðinni stafar af fjölgun flóttafólks, hvernig það er að sliga alla innviði og grunnkerfi landsins; húsnæðiskerfi, heilbrigðiskerfi, löggæslu og menntakerfi. Allir vita að Jón er að ljúga. Flóttamönnum hefur ekki fjölgað ef undan eru skyldir þeir sem sérstaklega hefur verið boðið hingað af ríkisstjórninni; flóttafólki frá Úkraínu og Venesúela. Og innviðir og grunnkerfi samfélagsins eru ekki að bresta vegna flóttafólks heldur sökum áratugalangrar vanrækslu stjórnvalda. Sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt.

Frá vorinu 1991 eru liðin 31 og hálft ár. Af þeim tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í stjórn í rúm 27 ár og þar af farið með fjármálaráðuneytið í rúm 26. Stefna flokksins hefur verið sveltistefna sem miðar að því að veikja innviði og brjóta niður grunnkerfi samfélagsins. Flokkurinn vinnur fyrir auðfólk sem vill ná undir sig opinberum rekstri. Forsenda þess að landsmenn sætti sig við einkavæðingu og einkarekstur opinberrar þjónustu er að grunnkerfin séu veikt svo að þjónustan versni þar til almenningur fellst á að einkafyrirtæki taki hana yfir.

Það er af þessum ástæðum sem sem grunnkerfin eru að bresta. Þau eru veik af áralangri vanfjármögnun og niðurbroti. Þau þola ekkert álag. Og það vissu stjórnvöld þegar þau buðu hingað sérstaklega flóttafólki frá Venesúela og síðan frá Úkraínu. Stjórnvöld gerðu ekkert til að undirbúa komu fólksins. 

Það er fátt fólk á Íslandi

Innviðir og grunnkerfi samfélagsins eru ekki að gefa eftir vegna fjölda flóttafólks. Það er ekki of mikið af fólk á Íslandi. Það er of fátt fólk á landinu. 

Þrátt fyrir að á þessu ári hafi komið hingað yfir tvö þúsund flóttamenn frá Úkraínu og Venesúela, fólk sem strax fær atvinnuleyfi, og auk þess yfir sjö þúsund innflytjendur til að vinna; þá hefur atvinnuleysi sjaldan verið minna og varla nokkru sinni viðlíka eftirspurn eftir vinnuafli. 

Þeir 600 flóttamenn sem hingað hafa komið frá öðrum löndum, og sem flestir uppfylla skilyrði til að fá hér vernd, dvalar- og atvinnuleyfi, eru aðeins dropi í hafið, skipta í raun engu máli varðandi hrörnun innviða og veik grunnkerfi.

Það er óendanlega skammarlegt og siðlaust að saka þennan hóp um að íþyngja samfélaginu. Það flóttafólk sem hingað hefur komið á liðnum árum og áratugum hefur ekki verið íþyngjandi fyrir okkur. Þvert á móti hefur það ásamt öðrum innflytjendum keyrt áfram atvinnulífið í landinu. 

Í dag eru yfir 22% starfandi fólks á Íslandi innflytjendur þótt þeir séu aðeins 16% mannfjöldans. Ef þetta fólk myndi leggja niður vinnu myndi Ísland stöðvast, allar atvinnugreinar og öll opinber þjónusta. Slíta þyrfti landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Ekki vegna þess að margir landsfundargestir séu innflytjendur, svo er ekki. Heldur vegna þess að fólkið sem þjónar fundinum og þrífur eftir hann eru innflytjendur.

Hvað er að Sjálfstæðisflokknum?

Flóttamenn og innflytjendur eru mannauður. Og það vantar mannauð á Íslandi. Það er ekki flóttamannavandi á Íslandi. Það er mannauðsvandi, okkur vantar fleira fólk.

En hvernig getur það gerst að stærsti stjórnmálaflokkur landsins er á móti þessum mannauð? Hvernig getur full Laugardalshöll af fólki snúist svo gegn flóttafólki og innflytjendum, fólki sem hingað kemur til að efla og styrkja samfélagið, að það fagnar því að lögreglan hafi handtekið fimmtán manneskjur á flótta eins og þær hafi framið glæp og flutt þær nauðugar úr landi eins og samfélaginu stæði ógn af þeim? Fatlaða manninum sem lögreglan reif upp úr hjólastólnum. Grátandi systrunum sem væru handteknar við Fjölbrautaskólann í Ármúla, keyrðar til Keflavíkur, settar þar í flugvél og síðan hent á götuna í Aþenu.

Áður en ég segi ykkur frá því vil ég ræða útlendingaandúð og andúð á fátæku og bjargarlausu fólki.

Álíka útlendingaandúð og hjá Miðflokki

Það er óumdeild að útlendingaandúð er útbreidd meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Þetta hefur komið fram í könnunum. Þegar afstaða fólks til innflytjenda er skipt eftir stjórnmálaskoðunum sést að kjósendur Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins skera sig frá öðrum flokkum. Þótt útlendingaandúð sé ívið meiri með hækkandi aldri og lægri tekjum þá er það afstaða til stjórnmálaflokkana sem er sterkasta breytan. Fólk með útlendingaandúð er miklum mun líklegra til að kjósa þessa þrjá flokka en aðra. Og í kjósendahópi þeirra er fólk haldið útlendingaandúð í meirihluta.

Stjórnmálaskýrendur hafa stundum heyrst segja að Íslendingar hafi sloppið að mestu við flokka á borð við Svíþjóðardemókrata, Danska þjóðarflokkinn, Þjóðfylkinguna frönsku, Bræðralag Ítalíu og aðra slíka popúlíska hægriflokka sem gera út á útlendingaandúð. Ástæðan er auðvitað að við höfum Sjálfstæðisflokkinn. Það er út af honum sem Miðflokkur eða Flokkur fólksins geta ekki orðið 20-25% flokkar eins og ofangreindum flokkum hefur tekist. Sjálfstæðisflokkurinn er 20-25% flokkur fyrir kjósendur með útlendingaandúð.

Og það er ástæðan fyrir flóttamannarassíunni í vikunni. Hún var framkvæmd af forystu í flokki sem vildi sína kjósendum hvar hugur þeirra lægi, kjósendum sem eru að mestu leyti fólk haldið útlendingaandúð. 

Auðvitað kaus einhver Sjálfstæðisflokkinn sem ekki er haldinn sterkri útlendingaandúð. Það eru ekki allir rasistar sem kusu Sjálfstæðisflokkinn og allir rasistar kusu ekki þennan flokk. Það er meira að segja til fólk sem kaus Trump án þess að vera ákafir rasistar. Og af sömu ástæðu er til fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn af öðrum ástæðum en útlendingaandúð. Það lætur sér hana linda vegna þess að því finnst annað mikilvægara. Sem er auðvitað viss tegund af útlendingaandúð, ekki stæk og hávær, en sem leiðir til nákvæmlega sömu niðurstöðu. Það að setja útlendingaandúð flokka ekki fyrir sig er auðvitað útlendingaandúð, styðjandi þótt hún sé ekki hvetjandi.

Flokkur fátæktarandúðar

Og meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins er fólk sem ekki er haldið útlendingaandúð en er samt með andúð á flóttafólki og hælisleitendum. Til að skilja þá afstöðu verðum við að kynnast öðru hugtaki, aporofóbíu eða fátæktarandúð sem lýsir sér í andúð gagnvart fátæku og bjargarlausu fólki. 

Og það vantar ekkert upp á fátæktarandúð í Sjálfstæðisflokknum. Andúð flokksins á leigjendum, öryrkjum, láglaunafólki og öðrum fólki í veikri fjárhagslegri stöðu á sér djúpar rætur í mannfélaginu og í Sjálfstæðisflokknum. Og hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. 

Það er innbyggt í það sem Sjálfstæðisflokksfólk kallar sjálfstæðisstefnuna að hver sé sinnar gæfu smiður. Flokkurinn var frá upphafi andsnúinn almannatryggingum og öðrum grunnþáttum velferðarríkisins. En hann sættist á þetta til að halda völdum í samfélagi sem krafðist félagslegs öryggis og réttlætis. 

Með sigri nýfrjálshyggjunnar átti flokkurinn erfiðara með þessa sátt. Manngildishugmynd nýfrjálshyggjunnar gengur út að hin ríku séu rík fyrir eigin verðleika. Þau eiga ríkidæmi sitt skilið og ríkidæmið sannar að þeim er einmitt best treystandi fyrir auð og völdum. Og þar með eru hin fátæku fátæk vegna skorts á verðleikum. Og það er kenning nýfrjálshyggjunnar að það gagnist lítið að styðja hin fátæku, veiku og valdalausu. Erfið staða þeirra á sér ekki félagslegar rætur heldur persónulegar.

Þannig er andmannúð innbyggð í nýfrjálshyggjuna. Hún er einskonar forlagatrú auðsins og sannfæring um að við búum í allra besta heimi allra heima; að okkur sé ekki ætlað að raska það jafnvægi sem heilagur markaður býr til og er auðvitað fyrst og síðast ójöfnuður. Innan þessa hugmyndaheims er ekkert rúm fyrir samúð. Sá sem hefur samúð með hinum snauða eða finnur til samkenndar opnar fyrir möguleika á að hin fátæku búi við ósanngjörn örlög. Sem opnar fyrir þanka um að kannski sé óréttlátt að hinn ríki sitji einn að sínum auð. Ef fólk ætlar að iðka nýfrjálshyggju þarf það að brynja sig fyrir slíkum hugsunum og herða sig svo það finni ekki til samkenndar með þeim sem standa illa, eru fátækir, veikir og valdalausir.

Víxlverkun fordómanna

Fordómar virka saman, eins og kunnugt er, magnast upp því fleiri koma saman. Í fordómafullu samfélagi getur þú sloppið inn fyrir gættina ef aðeins eitthvað eitt sker þig frá norminu. Þú mátt vera innflytjandi en ekki svartur og innflytjandi. Þú mátt vera innflytjandi en ekki fátækur innflytjandi og alls ekki bjargarlaus og allslaus á flótta. Þú mátt vera fátæk en ekki fötluð, fötluð en ekki lesbísk, lesbísk en ekki innflytjandi, innflytjandi en ekki með geðraskanir, með geðraskanir en ekki múslimi, múslimi en ekki fátæk. 

Þið skiljið hvað ég meina. Best er auðvitað að vera ríkur hvítur miðaldra karl í Sjálfstæðisflokknum. Þeir eru normið. Allt annað fólk er mismikið gallað, marklaust á mis afgerandi hátt.

Og ef við förum aftur að útlendingaandúð Sjálfstæðisflokks, Flokks fólksins og Miðflokksins þá er útlendingaandúð sterkari en fátækraandúðin í Flokki fólksins. Í Sjálfstæðisflokknum er fátækraandúðin ráðandi fremur en útlendingaandúðin. Þar þolir fólk vel menntaða auðuga sérfræðinga þótt þeir séu innflytjendur. Í Miðflokknum er öll andúð jafn sterk.

Bjarni ákvað að leggja í leiðangur

En ég spyr aftur: Hvernig getur það gerst að stærsti stjórnmálaflokkur landsins lenti á þessari braut? Þótt íhaldsflokkar Norðurlandanna og meginlandsins séu auðvitað auðvaldsflokkar þá hafa þeir ekki opnað fyrir jafn grímulausa andmannúð og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert.

Að nokkru er það tíðarandinn. Við misstum mannúðina sem samfélag. Það virtist sem við værum að stefna að auknum jöfnuði og réttlæti á eftirstríðsárunum, aukinni mannvirðingu og mannréttindum, en svo kom nýfrjálshyggjan og einstaklingshyggjan og tók yfir. Og íslenskt samfélag fór lengra inn þá blindgötu heldur nágrannar okkar á Norðurlöndunum og á meginlandinu.

En meginástæðan er samt ákvarðanir sem Sjálfstæðisflokkurinn tók með opin augu. Og þær ákvarðanir voru teknar af Bjarna Benediktssyni eftir að hann var formaður. Hann ákvað að Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki samleið með íhaldsflokkum Norðurlanda og meginlandsins, hefðbundinni systurflokka Sjálfstæðisflokksins, heldur þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn að finna sér nýjan pólitískan grunn eftir Hrunið 2008.

Þess vegna lagði Sjálfstæðisflokkurinn í undarlegan leiðangur með breska Íhaldsflokknum árið 2011 sem miðaði að því að byggja upp nýtt flokkabandalag hægri flokka og móta þar með nýjan grunn íhaldsstefnunnar eftir Hrun.

Klúbbur sem laðar að sér fasista

Íhaldsflokkurinn breski hafði sagt sig úr samstarfi við aðra klassíska íhaldsflokka í Evrópu árið 2009 til að mynda nýtt Bandalag íhalds- og framfaraflokka með Lög og rétti í Póllandi, Lýðræðislega borgaraflokknum í Tékklandi og öðrum smærri flokkum. Næstu árin fjölgaði í þessu bandalagi. Sjálfstæðisflokkurinn kom inn 2011, Réttlætis- og Framfaraflokkur Erdogan í Tyrklandi 2013, Danski þjóðarflokkurinn 2014, Sannir Finnar 2015, Svíþjóðardemókratar 2018, Vox á Spáni og Bræðralag Ítalíu 2019 (Direzione Italia sem rann inn í Bræðralagið hafði verið meðlimur frá 2017). Þetta var sem sé klúbbur sem laðaði að sér ekki bara flokka sem urðu til á grunni útlendingaandúðar heldur líka flokka sem áttu rætur að rekja til nýnasisma og fasisma.

Þótt þetta bandalag hafi fyrst og fremst starfað á vettvangi Evrópu þá áttu flokkar utan álfunnar einskonar aukaaðild að klúbbnum, eins og Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum. Íhaldsflokkurinn í Kanada, Frjálslyndi flokkurinn í Ástralíu og Likud í Ísrael.

Sambærilegt flokkabandalag starfaði á þingi Evrópuráðsins og fylgdi Sjálfstæðisflokkurinn þar Íhaldsflokknum breska. Í Evrópuráðinu bættust aðrir flokkar við klúbbinn, til dæmis Sjálfstæðir Grikkir, Framfaraflokkurinn norski og Sameinað Rússland Pútíns fram að innrásinni í Krím.

Í Reykjavíkuryfirlýsingunni frá 2014, sem er einskonar manifesto þessara flokka, er lögð áhersla á einstaklingsfrelsi, fullveldi þjóða, þingræði, réttarríki, eignarréttinn, lága skatta, aðhaldssöm ríkisfjármál, frjáls viðskipti, samkeppni og valddreifingu. Ríkið á að vera eins lítið og mögulegt er. Sagt er að frelsi einstaklingsins feli í sér trúfrelsi, tjáningarfrelsi, ferða- og félagafrelsi, samnings- og atvinnufrelsi og frelsi frá kúgandi sköttum sem lagðir eru á af handahófi eða til að refsa þeim sem hafa auðgast.

Í fyrrahaust sagði breski Íhaldsflokkurinn sig úr þessum bandalagi og Sjálfstæðisflokkurinn fylgdi á eftir. Íhaldsflokkurinn missti tök á þessu sköpunarverki sínu. Í dag er Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu forseti Bandalags íhalds- og framfaraflokka og varaforsetar eru Jorge Buxadé frá Vox á Spáni og Radosław Fogiel frá Lög og rétti í Póllandi. Þetta eru pólitískir afkomendur fasista síðustu aldar.

Leit að ábreiðu yfir nýfrjálshyggjuna

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi yfirgefið þetta bandalag í fyrrahaust þá fylgdi hann þróun Íhaldsflokksins breska eftir Hrun í átt að hægri popúlisma og útlendingaandúð, sem keyrði til dæmis áfram baráttuna fyrir Brexit. Bjarni Benediktsson var gestur á landsþingi Íhaldsflokksins breska í síðasta mánuði og hann hefur líka sótt landsfundi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Repúblikanir hafa ekki aðeins keyrt á útlendingaandúð heldur líka almennri andstöðu gegn mannréttindasigrum síðustu aldar; þungunarrofi, samvistum hinsegin fólks og öðrum mannréttindum. 

Og það sama einkennir nýja hægrið í Evrópu. Flokkarnir sem Sjálfstæðisflokkurinn var með í Bandalagi íhalds- og framfaraflokka leggja allir áherslu á það sem þeir kalla gildi síns lands, sem er annað orð yfir þjóðernishyggju, útlendingaandúð, andstöðu gegn kvenréttindum, réttindum hinsegin fólks, flóttafólks og annarra jaðarsettra hópa. 

Eins og hjá Repúblikunum í Bandaríkjunum er þetta kalkúleruð stefna. Þessir flokkar vita að nýfrjálshyggjan er óseljanleg vara. Það mun aldrei gerast að meirihluti fólks kjósi yfir sig sveltistefnu og auðmannadekur nýfrjálshyggjunnar. Þess vegna efna þessir flokkar til menningarstríðs til að láta stjórnmálin snúast um ótta fólks við að samfélagið sé að leysast upp vegna aukinna réttinda kvenna, innflytjenda, samkynhneigðra, fatlaðra og annarra jaðarsettra.

Og það er af þessum ástæðum sem Sjálfstæðisflokkurinn lét elta uppi og handtaka fimmtán flóttamenn í vikunni, sækja unglingsstúlkur í skólann, rífa fatlaðan mann upp úr hjólastól til að setja hann um borð í flugvél, fljúga honum til Grikklands og henda honum þar á götuna. Hvorki Bjarni Benediktsson né Jón Gunnarsson telja að samfélaginu stafi hætta af þessum fatlaða manni. Þeir vita að okkur munar ekkert um að veita honum skjól. En þeir hafa sannfærst um eina leiðin fyrir þá til að forða Sjálfstæðisflokknum frá að skreppa saman vegna andstyggðar fólks á nýfrjálshyggjunni er að höfðu til útlendinga- og fátækrarandúðar og fórna þessum manni, stúlkunum tveimur og fjölskyldum þeirra.

Og þeir uppskáru klapp á landsfundinum. Þeir sáu og heyrðu að þeir eru á réttri leið að mati flokksins.

Atkvæðagreiðsla um þungunarrof

Skýrt merki um að Bjarni vilji elta nýja hægrið í Evrópu er atkvæðagreiðslan um lög um þungunarrof í maí 2019. Þá greiddu atkvæði gegn lögunum allir þingmenn Miðflokksins nema eina konan, Anna Kolbrún Árnadóttir, sem sat hjá. Karlarnir greiddu atkvæði gegn lögunum: Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Þór Þorvaldsson (varaþingmaður), Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorsteinn Sæmundsson. Og líka allir þingmenn Flokks fólksins: Guðmundur Ingi Kristinsson og Inga Sæland.

Allir þingmenn Vg, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata greiddu atkvæði með lögunum.

Sjálfstæðisþingmennirnir sýndu hins vegar ólíka afstöðu. Vilhjálmur Árnason og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir mættu ekki í atkvæðagreiðsluna. Haraldur Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson sátu hjá. 

Helmingur þingflokksins greiddi atkvæði gegn frumvarpinu um þungunarrof þótt það hafi verið stjórnarfrumvarp: Ásmundur Friðriksson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon og Sigríður Á. Andersen.

Aðeins fjórir Sjálfstæðisflokksmenn greiddu atkvæði með lögunum, fjórðungur þingflokksins: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Kristján Þór Júlíusson.

Hatrið hefur sigrað

Þetta mál sýnir ágætlega stöðu Sjálfstæðisflokksins. Innan hans eru leyfar frjálslyndis, þótt það hafi að mestu yfirgefið flokkinn. En að stærstu leyti hefur flokkurinn ákveðið að feta sömu braut og nýja hægrið í Evrópu og Repúblikanaflokkur Trumps í Bandaríkjunum, sannfærður um að eina leiðin til að verja þann auð og þau völd sem auðvaldið náði til sín á nýfrjálshyggjuárunum með árásum á félagslega sigra verkalýðshreyfingarinnar er að efna til stríðs gegn mannréttindasigrum frelsisbaráttu undirsettra hópa. 

Þetta er leiðin sem Bjarni Benediktsson valdi að feta þegar nýfrjálshyggjan hrundi 2008. Og í raun skiptir ekki máli hvort hann eða Guðlaugur Þór verður formaður flokksins á morgun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt Bjarna þessa leið og það er of seint að snúa af þessari braut. Þetta er flokkurinn sem Viðreisnarfólkið flúði. Þetta er grimmdin sem mannúðarsinnar stilla upp á móti því sem þeir kalla gamla góða Sjálfstæðisflokkinn og vísa til flokksins fyrir nýfrjálshyggju. Eftir situr fólk sem stendur á fætur og klappar fyrir árásum lögreglunnar á fátækt og bjargarlaust fólk.

Það verða ekki til neinir Íslandsdemókratar utan um útlendinga- og fátæktarandúð eins og Svíþjóðardemókratar og Danmerkurdemókratar. Íslandsdemókratarnir eru í Sjálfstæðisflokknum.

Hatrið mun sigra í Laugardalshöll vegna þess að hatrið var búið að sigra löngu áður en landsfundurinn var settur. Eftir lögregluofbeldi vikunnar gat enginn réttsýnn maður gengið þarna inn. Á fundinum er aðeins samviskulaust fólk, blint af hatri og andúð gagnvart bjargarlausu fólki.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí