Hvað varð um 75.000 leigjendur?

Skoðun Guðmundur Hrafn Arngrímsson 15. feb 2023

Frá árslokum 2018 og til ársins 2022 fjölgaði íbúum á Íslandi um tuttugu og átta þúsund. Á sama tíma segir í gögnum Hagstofunnar að tuttugu og sjö þúsund heimili hafi komist í séreign á húsnæðismarkaði, eða sextíu og sjö þúsund einstaklingar. Vandamálið er bara að það voru ekki nema sjö þúsund og sex hundruð íbúðir sem þessi heimili eignuðust í sameiningu á tímabilinu.

Ef fjölgun íbúa er svo bætt við þá sem sagðir eru hafa komist í séreign á tímabilinu þá gerir það níutíu og fimm þúsund alls. Þessir níutíu og fimm þúsund einstaklingar hafa því samkvæmt Hagstofunni komist einhvern veginn fyrir í þeim sjö þúsund og sex hundruð íbúðum sem komust í eigu einstaklinga á tímabilinu. Þannig eru fjögur heimili á hverja íbúð, og deila henni jafnframt að auki með um það bil fjórum aðfluttum íbúum.

Samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun komust sjö þúsund og sex hundruð íbúðir í eigu “einstaklinga með eina íbúð” frá árslokum 2018 til ársins 2022. Þrátt fyrir að tíu til tuttugu prósent fleiri búi á íslenskum heimilum en annarss staðar á Norðurlöndunum þá getur þessi fjöldi íbúða ekki hýst nema tuttugu þúsund einstaklinga.

Hagstofan segir leigumarkaðinn dragast saman

Þetta þýðir að hinir sjötíu og fimm þúsund hafa hreinlega gufað upp skv. tölum Hagstofunnar. Ef þeir komast ekki fyrir í þeim íbúðum sem komust í eigu “einstaklinga með eina íbúð” þá ættu þeir að öllu jöfnu að vera á leigumarkaði, en samkvæmt Hagstofunni eru þeir það ekki. Þetta eru nokkuð merkilegar fréttir í ljósi þess að um þessar mundir hækkar húsaleiga sem aldrei fyrr og aldrei verið fleiri einstaklingar á eftir þeim íbúðum sem eru í boði á leigumarkaði. Það er undarlegur markaður sem hækkar upp úr öllu valdi þegar viðskiptavinirnir gufa upp. Vitað er að hluti þessara einstaklinga hreinlega á vergangi, býr holum og hreysum eða upp á aðra komin.

Hugsanlega hefur talnameisturum Hagstofunnar brugðist hrapalega bogalistin eða eru vísvitandi að segja okkur sögu sem er órafjarri sannleikanum. Nýlega birtist til dæmis frétt á heimasíðu Hagstofunnar þar sem sagt var að einungis tíu prósent íbúa landsins byggju á almennum leigumarkaði. Hefur heimilum á almennum leigumarkaði fækkað um fimm þúsund og fimm hundruð á milli ára samkvæmt þeim tölum. Annað hvort hafa þau öll komist á félagslega rekin leigumarkað eða í séreign. Íbúðum í eigu „einstaklinga með eina íbúð“ fjölgaði hinsvegar bara um eitt þúsund og þrjú hundruð á milli ára og á sama tíma fjölgaði landsmönnum um sjö þúsund og fimmhundruð.

Sömu tölur stofnunarinnar segja heildarstærð leigumarkaðarins vera tuttugu og eitt prósent af öllu húsnæði á landinu eða þrjátíu og fjögur þúsund heimili. Það þýðir að hinn almenni leigumarkaður er aðeins sextán þúsund heimili en að átján þúsund heimili séu á félagslega reknum markaði.

Tuttugu og tveir íbúar á hverju heimili

Hagstofan segir jafnframt að á milli áranna 2018 og 2019 á leigumarkaðurinn hafa dregist saman um heil tólf þúsund og sex hundruð heimili þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað um átta þúsund og fimm hundruð sem er næstmesta íbúafjölgun í sögu landsins. Einungis eitt þúsund og átta hundruð íbúðir komust í eigu “einstaklinga með eina íbúð” á milli þessara ára, sem þýðir að yfir tuttugu og tveir einstaklingar deili hverri íbúð. Að sama skapi segir stofnunin að leigumarkaðurinn hafi dregist saman um fjórtán þúsund heimili frá árslokum 2018 til ársins 2022.

Það átta sig allir heilvita einstaklingar að svona framsetning er annaðhvort sett fram af viðvaningshætti, af kæruleysi eða hreinlega sem blekking. Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir frávikum í gagnaöflun og framsetningu eru svona vinnubrögð til marks gagnslausa eða mjög hlutdræga framkvæmd í vinnslu og framsetningu. Mjög mikilvægt er hinsvegar að þegnar landsins geti treyst því að stofnanir greini rétt frá þeim veruleika sem landsmenn búa við en séu ekki vísvitandi að blekkja fólk í annarlegum tilgangi.

Uppbygging félagslegs leiguhúsnæðis

Í skýrslu Varasjóðs Húsnæðismála frá 2017 kemur fram að félagslegar leiguíbúðir og íbúðir fyrir aldraðra og fatlaða voru tæplega fimm þúsund alls á landinu öllu. Á því sama ári kemur fram í gögnum Hagstofunnar að heimili á leigumarkaði voru fjörutíu og fimm þúsund talsins. Það þýðir að fjörtíu þúsund heimili voru þá á almennum leigumarkaði.

Frá árinu 2017 hafa fimmtán þúsund íbúðir verið fullbyggðar á landinu öllu. Reykjavíkurborg sem borið hefur höfuð og herðar yfir önnur sveitarfélög í uppbyggingu á félagslegu húsnæði á núna þrjú þúsund félagslegar leiguíbúðir. Á höfuðborgarsvæðinu var fjöldi félagslegra leiguíbúða í árslok 2021 alls þrjú þúsund og átta hundruð. Bjarg íbúðafélag hefur reist átta hundruð fullbúnar íbúðir frá árinu 2017 og nokkur sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins hafa byggt eitthvað af íbúðum í samvinnu við leigufélagið Bríet.

Að þessu sögðu er ljóst að fjöldi félagslegra leiguíbúða sem bæst hefur við íslenskan húsnæðismarkað frá árinu 2017 er aldrei yfir þrjú þúsund eða tuttugu prósent af heildarframleiðslu á húsbyggingamarkaði. Heildarfjöldi félagslegra leiguíbúða á Íslandi liggur því á bilinu sjö til átta þúsund. Það er ekki nema að von að lesendur spyrji sig hvernig átján þúsund heimili sem Hagstofan segir að séu á félagslega reknum leigumarkaði komist fyrir í átta þúsund íbúðum. Það er því miður ekki hægt.

Blekkingar í pólitískum tilgangi?

Frá árinu 2018, ári eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson settist í stól innviðaráðherra hefur gagnavinnsla Hagstofunnar sem er heyrir undir ráðuneyti hans, um leigumarkaðinn einkennst af villandi og rangri framsetningu. Það gildir ekki síður um gagnavinnslu og framsetningu Húsnæðis og Mannvirkjastofnunar sem einnig heyrir undir Innviðaráðuneytið. Hafa verið brögð af því að stofnunin hafi fjarlægt fréttir af heimasíðu sinni eftir að Leigjendasamtökin hafa sett fram greiningar á opinberum gögnum. Að sama skapi hefur stofnunin lokað fyrir Verðsjá Húsaleigu um óákveðinn tíma og áskilur sér rétt til að breyta vinnslu gagna og útreikningum afturvirkt.

Önnur stofnun sem hefur haldið úti gagnaöflun um íslenskan húsnæðismarkað er Fasteignaskrá, en þar hefur verið hægt að sjá gögn um fjölda íbúða á Íslandi sem og eignarhald á húsnæði. Fasteignaskrá hefur reiknað út vísitölu húsaleigu sem og gefið út skrá yfir alla þinglýsta húsaleigusamninga. Þetta hefur verið gert til að tryggja gagnsæi í framvindu uppbyggingar á húsnæði og áætlana stjórnvalda. Öll starfsemi Fasteignaskrár hefur nú verið flutt til Húsnæðis og mannvirkjastofnunar en stofnunin hefur ítrekað verið sökuð um blekkingar og villandi framsetningu á tölulegum gögnum um leigumarkaðinn af Samtökum leigjenda.

Framsetning sem styður við aðgerðaleysi á húsnæðismarkaði

Það er ljóst að trúverðugleiki í vinnslu og framsetningu gagna um leigumarkaðinn hjá þeim stofnunum sem heyra undir Innviðaráðuneytið hefur beðið mikla hnekki undanfarið og ekkert sem bendir til þess að það sé að fara að breytast ef marka má nýlega framsetningu Hagstofunnar um leigumarkaðinn og feluleik Húsnæðis og mannvirkjastofnunar.

Nú stendur yfir vinna við endurskoðun húsaleigulaga, úrbætur á húsnæðismarkaði og endurskoðun húsnæðisbótakerfisins. Ef marka má þau drög sem vinnu- og starfshópar ráðuneytisins undir forystu flokksgæðinga stjórnmálaflokks ráðherrans þá er engra sérstakra tíðinda að vænta fyrir leigjendur. Það lítur allt út fyrir að blekkingar í framsetningu um stöðuna á leigumarkaði sé einmitt í þeim tilgangi einum að styðja við fálæti og aðgerðaleysi ráðherrans í málaflokknum, sem einkennt hefur stjórnartíð hans og samstarfsfólks í ríkisstjórn.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson
Formaður Samtaka Leigjenda á Íslandi



Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí