Hjón á lágmarkstöxtum myndu greiða 97% af ráðstöfunartekjunum í leigu

Geðveiki verðlagningar á leigumarkaði heldur ótrauð áfram á meðan að óstarfhæf ríkisstjórn virðist ófær um að leggja nokkurn skapaðann hlut af mörkum til að stemma stigu við því helsi sem ríkir.

Ný leiguauglýsing á Igloo, leiguvefnum vinsæla og alræmda, krefst 600 þúsund króna í mánaðarlega leigu fyrir aðeins 124 fermetra, tveggja svefnherbergja íbúð við Mýrargötu í 101 Reykjavík.

Þá eru aðeins litlar 1,8 milljónir í þriggja mánaða tryggingu og innflutningsverð því samtals 2,4 milljónir með fyrstu mánaðargreiðslu leigunnar.

Af einni mynd sem sett er með auglýsingunni má vissulega sjá að um er að ræða nýtískulega íbúð og eflaust var miklu eytt í innvolsið. Um er einnig að ræða tiltölulega nýlega byggingu, íbúðarhús sem byggt var árið 2014 niður við Granda.

Ef að hjón með börn myndi vilja leigja íbúðina, nota annað svefnherbergið fyrir barnið eða börnin þá er ljóst að leiguverðið myndi algerlega lama þeirra fjárhag.

Fólk á lágmarkslaunum gæti augljóslega aldrei klifið þetta verð. Af lægstu töxtum starfsfólks veitingahúsa hjá Eflingu stéttarfélagi myndi einstaklingur í fullri vinnu vera með rétt rúmlega 308 þúsund krónur í vasanum í ráðstöfunartekjur. Væru hjón í svipaðri vinnu á svipuðum launataxta myndu þau þurfa að borga 97% af ráðstöfunartekjum sínum í slíka leigu.

Ef fólk er í ágætlega vel launaðri vinnu, segjum 800 þúsund á mánuði, þá skilur það eftir sig tæpar 500 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur. Fyrir hjón með álíka laun væri leigan samt 60% af þeirra ráðstöfunartekjum.

Ef að fólk er með ennþá hærri laun en það, þá mætti spyrja sig hvers vegna slíkt fólk þyrfti að leigja til að byrja með, enda verður það harla ólíklegt.

Spurningin hérna er hvort einhver lausn liggi á sjóndeildarhringnum? Hvað bjóða ríkisstjórnarflokkarnir upp á til að leysa þennan vanda?

Frumvarp Sigurðar Inga, fyrrum innviðaráðherra, nú fjármálaráðherra, um svokallaða „bætta réttarstöðu leigjenda“ bíður afgreiðslu á þingi. Í frumvarpinu eru jú einhverjar úrbætur að finna, hvað varðar að efla úrskurðarnefnd húsaleigumála, sem leigjendur geta fræðilega leitað til ef vegið er að þeirra réttindum. Í sama frumvarpi er þó ákvæði sem heimilar í fyrsta skipti leigusölum að breyta verði á miðju samningstímabili, ef liðnir eru að minnsta kosti 12 mánuðir af samningi. Sú breyting myndi heimila leigusölum að vísa í „markaðsverð“ sem stuðning þess að hækka leiguverðið, óháð því hvað samið var um í byrjun langtímaleigusamnings.

Ef þetta dæmi um Mýrargötu er „markaðsverð“ þá er óhætt að segja að voðinn sé vís fyrir leigjendur ef málið verður samþykkt. Það er þá kannski einhverri undarlegri lukku að sæta að ríkisstjórnarflokkarnir eru svona óstarfhæfir að þeir eiga erfitt með að koma sér saman um nokkurn skapaðann hlut. Málið gæti þó flogið í gegn í þessari viku, enda lítil andstaða við frumvarpið á þingi, ekki einu sinni frá stjórnarandstöðunni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí