„Það er húsnæðiskostnaðurinn sem heldur uppi verðbólgunni núna, eins og undanfarna mánuði. Hátt vaxtastig Seðlabankans er lykil orsakavaldur þess. Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd Hagstofunnar. Húsnæðiskostnaður hækkar um 11,2% á meðan verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkar um 4%.“
Þetta skrifar Stefán Ólafsson, fyrrverandi félagsfræðiprófessor, í færslu á Facebook. Hann segir byggingariðnaðinn þurfa alla þá hvata sem völ er á til að örva byggingu nýrra íbúða. „Þess vegna er þörfin fyrir öra lækkun vaxta sem fyrst svo brýn. Með því fengi byggingariðnaðurinn hvata til að örva byggingu nýrra íbúða, sem er það sem þarf til að ná húsnæðisverðlagi niður,“ segir Stefán og bætir við að lokum:
„Ef ekki er brugðist hratt við þá magnast tjónið af stefnu Seðlabankans enn meira en orðið er. Ég óttast hins vegar að hroki seðlabankafólks sé svo mikill að þau herðist bara í einstrengingslegri afstöðu sinni við gagnrýni frá verkalýðshreyfingunni og öðrum.“