Ferðamannaiðnaðurinn vælir og skælir og ætlast til að almenningur leysi vandamál sín, segir Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Úrvals Útsýnis, í hressandi viðtali við Vísi í dag.
Mikið hefur borið á harmakveini fulltrúa og talsmanna ferðamannaiðnaðarins undanfarnar vikur yfir smávægilegum samdrátti í bókunum fyrir sumarið, það þrátt fyrir ofsavöxt frá lokum Covid-faraldursins. Harmakveinið beinist fyrst og fremst að yfirvöldum sem sárbænd eru um ókeypis markaðssetningarherferð fyrir hönd iðnaðarins. Ókeypis fyrir ferðaþjónustuna auðvitað, ekki ókeypis fyrir almenning. Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, hefur nú þegar lofað einhverjum hundruðum milljóna í slíka markaðssetningarherferð.
Þórunn veitti því hressandi heiðarleika og einlægni í lýsingu sinni á kollegum sínum innan iðnaðarins. „Ég man alveg þá daga sem ferðamenn komu hingað bara þrjá mánuði á ári. Og það var ekki grenjað svona mikið þá eins og við heyrum í dag. Ég er bara að segja við greinina, vinnið í ykkar málum.“
Þórunn segir algerlega skorta langtímastefnu og sýn í ferðamannaiðnaði hér á landi og atvinnugreinin þurfi fyrst og fremst að horfa inn á við. „Það að fara í eitthvað átak í markaðssetningu núna í byrjun júlí er að mínu mati bara rugl, það er bara verið að henda peningum.“
Innviðir landsins séu það sem þurfi á slíkum fjármunum að halda, segir hún. „Þannig að mér finnst ekkert sjálfsagt að við almenningur eigum að fara að borga markaðssetningu.“
Þórunn hittir auðvitað naglann á höfuðið, því í dýrtíðarkrísunni sem nú geysar vegna verðbólgu og húsnæðiskreppunni sem plagar Ísland árum saman er tvennt ljóst, meiri ferðamennska er ekki að fara lagfæra ástandið.
Í raun er það fyllilega ljóst hverjum þeim sem vill skilja það að áframhaldandi vöxtur ferðaþjónustunnar hefur gríðarlega neikvæð áhrif á innviði og náttúru, en fyrst og fremst á húsnæðismarkaðinn. Nú þegar hefur gríðarleg fólksfjölgun aðflutts starfsfólks ferðamannaiðnaðarins skapað óheyrilegan þrýsting á húsnæðismarkaðinn og frekari vöxtur í greininni mun krefjast enn fleira starfsfólks, sem eykur enn á þrýstinginn á eftirspurnarhliðinni, sem þá ýtir undir verðbólgu, en ekki síður versnandi lífskjör allra sem búa hér á landi nú þegar.
Stefán Ólafsson, félagsfræðiprófessor og ráðgjafi hjá Eflingu stéttarfélagi, lýsti því þannig í dag að húsnæðisliðurinn væri það sem héldi verðbólgunni gangandi. Enda er það öllum morgunljóst sem lifa og hrærast í þessu samfélagi.
Það breytir því ekki að stjórnmálastéttin hefur ofuráhuga á því að moka stöðugt undir ferðamannaiðnaðinn, því jákvæðar hagvaxtartölur, lágt atvinnuleysi og sköpun starfa lítur alltaf vel út fyrir alla pólitíkusa, alveg óháð því hvort þeir hafi haft nokkuð með það að gera. Enda hefur hver einasta ríkisstjórn frá Hruni gefið ferðamannaiðnaðinum algerlega lausann tauminn með tilheyrandi afleiðingum fyrir samfélagið.
Í ofanálag við allar þessar neikvæðu afleiðingar á samfélagið krefjast forkólfar túrismans þess samt að auka beri vöxtinn enn meir, því eins og allur iðnaður byggður upp á kapítalískum grunni, þá er aldrei nóg komið. Ferðamannaiðnaðurinn á að vaxa til hins óendanlega þangað til að ekkert verður eftir hér á landi nema öreigar í okurleigu sem vinna fyrir brauðmylsnu í ferðamannaverksmiðjum veitingastaða og gististaða.
Glæsileg framtíðarsýn það.