„Aðhald í ríkisfjármálum“ boðar Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra.
Nú í dag voru fréttir þess efnis að verðbólga færi lækkandi og er komin undir 6% í fyrsta skipti í tvö og hálft ár. Bjarni Benediktsson sagðist vera hóflega bjartsýnn og að hægt væri að vænta vaxtalækkana í náinni framtíð.
Sigurður Ingi er hins vegar svartsýnn og segir mörg teikn og merki um það að verðbólgan geti áfram verið erfið og jafnvel hækkað. Enda er ljóst að undirliðir verðbólgunnar hækka, ekki síst leiguverð.
Samstöðin fjallaði þannig um hækkanir á leiguverði um 3,2% á milli mánaða, um fimmfalt á við hækkun á vísitölu neysluverðs á sama tíma. Til ársgrundvallar hafa leiguhækkanir verið rúmlega tvöfalt hærri en verðbólgan sem dæmi.
Það skyldi þá aldrei ætla að metnaðarfull og umsvifamikil opinber byggingaráform til að ráðast að hjarta húsnæðisvandans gæti reynst lausn á verðbólguvandanum? Einn stærsti hvati verðbólgunnar er húsnæðiskostnaðurinn eins og Stefán Ólafsson ræddi í færslu sinni á Facebook í dag, eins og Samstöðin fjallaði líka um.
Nei, svo er ekki að mati Sigurðar Inga, sem rétt eins og gervöll stjórnmálastéttin á Íslandi, hefur bráðaofnæmi fyrir þeirri hugmynd að hið opinbera beiti sér til að leiðrétta augljósan markaðsbrest, það að einkaaðilar á byggingamarkaði græða mest á því að byggja atvinnuhúsnæði eða að byggja dýrt og óhagkvæmt, sér til eigin hagnaðar og arðsemi.
Þvert á móti boðar Sigurður Ingi aðhald, sem er fína orðið yfir niðurskurð.
Rétt eins og Seðlabankinn telur það lausn á verðbólguvandanum að gera afborganir á heimilum venjulegs fólks dýrari og nánast óyfirstíganlega háar, þá telur Sigurður Ingi að minni fjárfesting í innviðum og almannakerfum sé lausnin.
Hver þarf óvini með svona hugsunarhátt í hæstu valdastöðum?