Pundið er nú lægra gagnvart dollar en það hefur verið í sögunni ef undan er skilið vorið 1985, þegar Margaret Thatcher hafði keyrt efnahag Bretlands niður með nýfrjálshyggju og stríði við verkalýðsfélögin. Fall pundsins núna má rekja til viðbragða við skattalækkana Liz Truss til fyrirtækja, fjármagns og hinna tekjuhæstu. Þetta er stefna sem byggir á trú á að skattalækkanir til hinna ríku muni efla hagkerfið, skapa störf og auka tekjur ríkisins til lengri tíma. Fall pundsins nú sýnir að enginn trúir þessari kenningu nýfrjálshyggjunnar lengur.
Á þessu grafi má sjá gengi pundsins gagnvart dollar frá því að það var tekið af gullfæti. Lína er dregin frá gengi dagsins.
Þarna sést stórkostlegt fall pundsins fyrstu fimm árin af valdatíma Thatcher. Þetta var samdráttartími í Bretlandi sem einkendist af vilja Thatcher til að brjóta niður vald verkalýðsfélaga og þar með almennings. Pundið jafnaði sig að nokkru, en þegar Thatcher var felld af eigin flokksmönnum 1990 var gengi pundsins á sömu slóðum og þegar hún tók við.
Liz Truss hefur neitað að tjá sig um fall pundsins í kjölfar kynningar Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra á breytngum á fjárlögum þar sem skattalækkanir og skuldasöfnun ríkissjóðs var boðuð.
Bresk ríkisskuldabréf hafa líka fallið, eru nú metin veikari en bæði ríkisskuldabréf Ítalíu og Grikklands.
Ríkisstjórn Truss virðist því hafa gert stórkostlega gloríu með innleiðingu nýfrjálshyggju Thatcher eftir að ríkisstjórn Boris Johnsson hafði reynt að rata aðra leið. Fall pundsins og dýrari fjármögnun ríkissjóðs á vaxandi skuldum mun auka enn á efnahagserfiðleika Bretlands þar sem heimatilbúin orkukreppa, byggð á orkustefnu sem Margaret Thatcher setti á sínum tíma, grefur undan lífskjörum almennings.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga