„Það hefur gerst áður að síðustu dagana fyrir kosningar þá færi hinir óákveðnu sig á þann sem er með mesta fylgið,“ segir Luciano Dutra, þýðandi sem fæddist og ólst upp í Brasilíu en hefur búið lengi á Íslandi. Hann telur að veik staða Jair Bolsonaro forseta Brasilíu og óánægja með stefnu hans geti tryggt Lula da Silva, fyrrum forseta, sigur í fyrstu umferð.
Samkvæmt nýjustu könnunum hefur Lula ágætt forskot og víðast meira fylgi en sést af myndinni. Þessi könnun sýnir minni mun en flestar aðrar.
Lula er fyrrum verkalýðsleiðtogi og Luciano segir hann hafa verið róttækari á árum áður. „Í dag er hann eins og Tony Blair Brasilíu,“ segir Luciano og lýsir því hvernig Lula hafi fært sig inn að miðju með árunum.
Bolsonaro getur aðeins treyst á um 25% kjarnafylgi, sem raunverulega tengir við stefnu hans. Í síðustu kosningum færði fólk sem var óánægt með stjórn Verkamannaflokksins sig yfir á Bolsonaro, ekki vegna þess að það væri hrifið af honum eða stefnu hans heldur vegna óánægju með stjórn landsins undir stjórn Verkamannaflokksins og Dilmu Rousseff.
Þegar Luciano var beðinn að lýsa Bolsonaro sagði hann Bolsonaro vera eins og Jón Gnarr, ef Jón Gnarr væri heimskur og illur maður.
Nánast meðan við ræddum við Luciano mátti sjá af yfirliti yfir samandregnar skoðanakannanir að sú tilhneiging sem hann spáði var farin að sjást, fylgi Lula er að aukast en fylgi Bolsonaro að skreppa saman. Grafið hér að ofan sýnir breytingar frá því um mitt sumar og þessi sveifla sem Luciano benti á er þarna í blálokin, á allra síðustu dögum.
Viðtalið við Luciano Dutra um brasilísku kosningarnar má sjá í spilaranum hér að ofan.