Verðlaunablaðamaðurinn Andreas Cervenka greinir umbreytingarnar á samfélaginu í Svíþjóð á nýfrjálshyggjuárunum í nýrri bók sinni: Gráðu Svíþjóð – hvernig þjóðarheimilið varð að paradís fyrir hin ofurríku. Þar kemur fram að það hafi aldrei verið fleiri milljarðamæringar í Svíþjóð. Og á sama tíma hefur hlutfall heimila sem búa við skort aldrei verið hærra.
Andreas Cervenka hefur skrifað um efnahagsmál og viðskipti fyrir marga miðla í Svíþjóð og verið verðlaunaður fyrir. Í nýju bókinni kryfur hann umbreytingarnar og dregur fram óhugnanlegar staðreyndir um stöðuna í Svíþjóð. Í þessu fyrrum fyrirmyndarríki jafnaðarmennskunnar á 0,1% hinna ríkustu nú stærri hluta hagkerfisins en reyndin er í Bandaríkjunum. Það eru fleiri milljarðamæringar í Svíþjóð en í Japan eða Brasilíu, miklu fjölmennari löndum.
Cervenka bendir á að skattar á launafólk séu hærri í Svíþjóð en víðast hvar. Skattar á fjármagn og eignir séu hins vegar með því lægsta, hafa lækkað mikið á undanförnum árum. Skattabreytingarnar leiddu til þess að milljarðamæringum fjölgaði. Þeir voru 28 fyrir aldarfjórðungi en eru nú 542.
Eins og á Íslandi magnaði cóvid upp misskiptingu eigna í Svíþjóð. Eignabólan jók við auð hinna ríku á meðan hin fátækari þurftu að taka á sig kjaraskerðingu. Á aðeins 24 mánuðum fjölgaði milljarðamæringum í Svíþjóð um 330, velstætt fólk sem varð ofurríkt í eignabólunni. Sænska krónan er 12,83 krónur, svo Cervenka er að tala um fólk sem á hreina eign upp á meira en 12,8 milljarða íslenskra króna.
Cervenka skýrir þessa auðsöfnun með mikilli lækkun skatta á fyrirtæki, fjármagn og eignir. En einnig með lágvaxtastefnu Seðlabankans, sem hafi búið til eignabólu á fasteigna- og hlutabréfamarkaði, og umfangsmikilli einkavæðingu sem fært hefur eignir frá almenningi til hinna ríku. Þetta er allt nokkuð sem við þekkjum hér á landi, einkenni stjórnarstefnunnar síðustu 30 ára.
Auðugt fólk í Svíþjóð greiðir nú lægra hlutfall tekna sinna í skatt en ræstingarfólkið sem þrífur heimili þess. Cervenka tekur dæmi af fólki sem hefur 50 milljónir íslenskra króna í laun á mánuði en borgar aðeins 7,5% í skatt, langt undir 30% fjármagnstekjuskattinum og langt undir skatthlutfalli launatekna. Ástæðan eru endalausar glufur sem eru í skattareglunum, glufur sem hin ríku geta nýtt sér á meðan venjulegt launafólk borgar sína skatta upp á punt og prik.
Bókin dregur ekki aðeins upp mynd af gríðarlegri auðsöfnun hinna fáu heldur líka af vaxandi örbirgð og ójöfnuði. Cervenka heldur því fram að ójöfnuður í Svíþjóð sé nú á pari við það er í Nígeríu og á Filippseyjum. Venjulegt launafólk hefur aldrei skuldað meira. Fasteignaverð hefur hækkað langt umfram laun og verðlag og til að eignast íbúð hefur fólk þurft að taka óheyrilega há lán.
Hækkun fasteignaverðs veldur því að færri hafi efni á 15% útborgun. Þetta býr til gjá í samfélaginu, þar sem mikil hækkun fasteignaverðs bæti eignastöðu þeirra sem eiga húsnæði en ekki hinna. Cervenka kvartar yfir því í bókinni að hækkun húsnæðisverðs mælist ekki í neysluvísitölunni, nokkuð sem fólk kvartar um á Íslandi að sé gert. Rök Cervenka eru að þegar hækkun eignaverðs sé ekki tekið með í verðbólgumælinguna sé að ekki sé fylgst með vaxandi skuldsetningu vegna hærra fasteignaverðs, en skuldsetningin auki líkur á efnahagshruni.
Cervenka fjallar um hvernig vaxandi misskipting auðs hafi breytt sænsku samfélagi. Áður hafi verið lögð áhersla á einn fyrir alla og allir fyrir einn, en nú hugsi hver um sjálfan sig. Í bókinni er vísað til rannsókna sem sýna að auðlegð breyti fólki, gerir það óhæfara til að finna til samkenndar. Hin auðugu réttlæta auð sinn fyrir sjálfum sér með því að þau eigi auðinn skilið vegna eigin verðleika og hefja sig þannig yfir almenning, telja sig eiga allt gott skilið og að þær reglur sem aðrir þurfa að beygja sig undir eigi ekki við sig.
Cervenka hefur uppi varnaðarorð til Svía um að þeir verði að snúa af braut. Hann segir að ef ekki verði gripið inn í muni allt þjóðfélagskerfið missa lögmæti sitt. Almenningur geti ekki sætt sig við ójöfnuðinn og missi trú á ríkisvaldinu og að ríkið sé til að verja sig og vernda. Hugmyndin um ríkið sem þjóðarheimili fellur.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga