Samstarfshópur um breytta orkustefnu í Noregi krefst þess, að ríkisstjórnin geri kerfisbreytingar til að leysa orkuverðskreppuna. Hópurinn var með mótmælastöðu fyrir utan Stórþingið meðan umræður um orkustefnuna fóru þar fram á sérstökum neyðarfundi. Hópurinn, sem líkja má við Orkuna okkar á Íslandi, krefst þess að norska ríkið taki aftur yfir orkumálin í landinu. Á Íslandi er á sama tíma verið að undirbúa uppboðsmarkað fyrir orku þrátt fyrir að það fyrirkomulag hafi magnað upp orkukreppuna í Evrópu og sé nánast að keyra Evrópu niður í efnahagskreppu.
Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur og einn af stofnendum Orkunnar okkar ræddi stöðuna í Noregi við Rauða borðið og líkindi með henni og norska orkumarkaðnum. Þar sem hér væri ekki sæstrengur væri íslenskur almenningur ekki í sömu hættu og fólk í suðurhluta Noregs þar sem rafmagnsverð hefði tífaldast. En Bjarni benti á að við værum á sömu leið. Landsnet væri t.d. að undirbúa uppboðsmarkað á raforku, en þetta uppboðskerfi hefði einmitt magnað upp vandann á orkumarkaði Evrópu. Rót vandans væri að skrúfað hefði verið fyrir gas frá Rússlandi en markaðsvæðing orkugeirans, sem byggði á uppboðsmarkaði, hefði leitt til þess að skortur á gasi hefði skrúfað upp verð á rafmagni frá vatnsaflsvirkjunum, þótt þar hafi í sjálfu sér ekkert breyst.
Nú er rætt um það bæði í norska stórþinginu og innan Evrópusambandsins að breyta verði orkustefnunni. Bjarni segir að eftir innrásina í Úkraínu og afleiðingar hennar hafi komið í ljós að þetta kerfi haldi ekki þegar skortur er á orku. Ríkisstjórnir og framkvæmdastjórn ESB hafi hins vegar aðeins reynt að setja plástra á vandann, ekki þorað að taka þetta kerfi einfaldlega úr sambandi.
Norsku samtökin sendu frá sér yfirlýsingu í vikunni til að skýra stöðuna og leggja fram kröfur, plagg sem Bjarni hefur þýtt. Þar stendur:
Kröfur um breytta orkustefnu í Noregi
ESB hefur boðað neyðaraðgerðir til að fást við óviðunandi hátt orkuverð í Evrópu. Forseti framkvæmdastjórnar ESB segir, að núverandi markaðsfyrirkomulag hafi verið þróað við annars konar aðstæður og til annars en nú blasi við, að gera þurfi.
Í þessu samhengi fer Samstarfshópur um breytta orkustefnu fram á það við ríkisstjórnina, að hún taki nú öflugt frumkvæði gagnvart ESB og Bretlandi um að leysa úr grundvallar fyrirkomulags- og kerfisvillum markaðarins. Þetta er nauðsynlegt til að endurreisa verðlagningu raforku úr norskum fallvötnum, sem endurspegli, að hún sé velferðarþjónusta fyrir norsk heimili og samkeppnisforskot fyrir norskt atvinnulíf. Eigin grundvallaraðgerðir eru mögulegar líka í Noregi, sbr aðgerðir í Frakklandi.
Eftirfarandi verður að framkvæma:
1. Aftenging norsks vatnsorkukerfis frá evrópska raforkumarkaðinum.
Norska vatnsorkukerfið er einstakt með sín miðlunarlón, sem jafna út mismunandi úrkomu eftir árstíðum og jafnvel árum. Það er svo ólíkt öðrum orkulindum á evrópska orkumarkaðinum, að það eitt og sér er næg ástæða til að krefjast aftengingar. Norsk miðlunarlón er ekki hægt að fylla á með tankbílum.
Við þetta má bæta, að jafnvel hámarksútflutningur á raforku frá norskum vatnsorkuverum, eins og árið 2021, jafngildir aðeins 1 % af getu evrópsku raforkuvinnslunnar. Til samanburðar nemur einvörðungu aukning norsks útflutnings á eldsneytisgasi til Evrópu 2022 6-földum útflutningi frá norskum vatnsorkuverum 2021.
Það verður að sjálfsögðu hægt að flytja norska umframraforku utan, þegar þörf norska markaðarins er fullnægt.
2. Endurheimtið stjórnun ríkisins á raforkuviðskiptunum
Samkvæmt raforkulögum var Statnett Marked AS stofnaður árið 1993 til að verða viðskiptamiðstöð norskrar raforku, seinna nefnd raforkukauphöll. Síðar var stjórnun þessarar kauphallar alfarið sett í hendur alþjóðlegra viðskiptaaðila. Þetta hefur síðan skapað markað fyrir ónauðsynlegan lið í virðiskeðjunni, sölufyrirtæki raforku, sem skapa engin verðmæti.
Ríkið verður að endurheimta stjórnun raforkuviðskiptanna. Þetta getur farið fram annaðhvort við kaup á raforkukauphöllunum, með öðrum fjárhagslegum aðgerðum eða með löggjöf. Í þessu samhengi verður að ganga úr skugga um, hvort í samningunum um sölu á þessari þjóðhagslega mikilvægu starfsemi var gerður fyrirvari um einhvers konar endurheimt ríkisins, og um það, hvernig Statnett hefur falið æðra stjórnvaldi söluna.
3. Tryggið stjórnun ríkisins á orkuflutningum um sæstrengina, sérstaklega um nýju strengina til Þýskalands og Bretlands
Með núverandi samningum er ákvörðun um útflutning og innflutning raforku frá og til Noregs algerlega í höndum markaðsaflanna. Þetta er óviðunandi í ljósi fjárfestinga norska ríkisins í sæstrengjunum. Þetta er einnig óviðunandi nú við gjörbreyttar forsendur, og þegar í ljós er komið, að verðáhrif nýju strengjanna eru svo miklu meiri en lagt var til grundvallar þessum fjárfestingarákvörðunum á sinni tíð.
Samningnum við Bretland er unnt að segja upp með ársfyrirvara. Í samningnum við Þýskaland er endurskoðunarákvæði, ef unnt er að sýna fram á verulegt óhagræði.
Noregur á áfram að eiga millilandatengingar, sem tryggja flutning raforku í báðar áttir, en ríkisstofnanir verða að ákvarða, hvernig þessi viðskipti fara fram, eins og gert var ráð fyrir í upprunalegu samningunum.
4. Afleiðingar
Þessar aðgerðir munu gera kleift að koma aftur á verðlagningu raforku, sem notuð er í Noregi, sem reist verði á raunkostnaði við að framleiða og flytja rafmagn með nauðsynlegri viðbót vegna fjárfestinga, endurfjárfestinga og endurbóta ásamt hugsanlegum viðbótum til að hvetja til orkusparnaðar.
Kostnaðargrundvölluð verðlagning raforku mun tryggja gegnsæi og framsæi bæði fyrir framleiðendur, flutnings- og dreifingarfyrirtæki og notendur, sem var grundvallar forsenda orkulaganna. Í Noregi er rafmagn nauðsyn, sem enginn á að geta grætt ótæpilega á, og ræður úrslitum um samkeppnishæfni atvinnulífsins.
5. Heimildir til aðgerða
Þessar aðgerðir eru reistar á skilyrðum, sem meirihluti á Stórþinginu lagði til grundvallar að samþykki Þriðja orkumarkaðspakka ESB og undirritaður var 20. mars 2018. Við gerum fastlega ráð fyrir, að ríkisstjórnin hafi afhent ESB/EES formlegar yfirlýsingar í samræmi við þessa grundvallar afstöðu. Samkomulagið var gert til að varðveita þjóðarhagsmuni innan ramma EES.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga