Hagnaður Landsvirkjunar á fyrstu níu mánuðum ársins var tæplega 31 milljarður króna. Fyrirtækið hefur aldrei hagnast jafn mikið og aldrei staðið betur. Og horfur eru góðar. Svo lengi sem álverð er hátt og orkuverð í toppi.
Tekjur Landsvirkjunar voru 49,2 milljarðar króna á þessum níu mánuðum. Rekstrarkostnaður var 10,7 milljarðar króna og því sátu eftir 38,5 milljarðar króna upp í afskriftir og fjármagnskostnað.
Þótt Landsvirkjun hafi greitt háan arð á undanförnum árum þá hefur félagið fyrst og fremst notað aukin hagnað til að greiða niður skuldir. Á árslok 2020 voru nettóskuldir Landsvirkjunar 243 milljarðar króna miðað við núvirði dollars. Í lok september voru skuldirnar 181 milljarður króna, hafa lækkað um 62 milljarða króna á tæpum tveimur árum.
Það sést hvurslags peningamaskína Landsvirkjun er á þessum tíma að handbært fé frá rekstri á þessum níu mánuðum var 51 milljarður króna, 47% meira en á sama tíma í fyrra.
Í tilkynningu Landsvirkjun segir Hörður Arnarson forstjóri að mikil eftirspurn sé eftir orku sem fyrirtækið getur ekki sinnt. Hörður segir að unnið sé hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa fyrir frekari uppbyggingu orkuvinnslu í vatnsafli, vindorku og jarðvarma, með sérstaka áherslu á Hvammsvirkjun, Búrfellslund og stækkun Þeistareykja- og Sigöldustöðva.