„Ef aðeins er tekinn kostnaður landsmanna af kredit og debetkortum er hann um 82.400 krónur árlega hjá fjögurra manna fjölskyldu. Það munar um minna. Þetta eru 13 milljarðar króna sem bankarnir hafa í tekjur af kortunum,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.
Að sögn Breka var velta á greiðslukortum í fyrra um 919 milljarðar króna. Þar af var um 158 milljarðar króna velta utanlands.
„Þegar fólk notar kortin í útlöndum nota kortafyrirtækin gengi sem er allt að 5% óhagstæðara en skráð gengi,“ segir Breki. „Ef við miðum við 3% gengisálag þá ná greiðslukortafyrirtækin um 4,7 milljörðum króna með þessum hætti, án þess að við tökum eftir því.“
Miðað við 0,2% þóknun söluaðila af debetkortum og 0,3% af kreditkortum ná greiðslukortafyrirtækin um 1,8 milljarði króna af almenningi. Síðan borgar fólk árgjald og svo færslugjald í hvert sinn sem það notar kortin. Og þegar þú færð yfirlitið í heimabankann borgar þú tilkynningargjald, segir Breki.
Inneignin þín á debetkortareikningnum ber lága vexti en bankinn fer með féð í Seðlabankann þar sem hann fær yfir 5% vexti.
Samanlagt eru þetta um 13 milljarðar króna árlega sem fjármálakerfið tekur til sín vegna debet- og kreditkorta. Það jafngildir um 82.400 kr. árlega fyrir fjögurra manna fjölskyldu.
Þetta segir Breki að sé miklu hærra en í nágrannalöndunum. Í Danmörku er rekið Dankort án hagnaðar, greiðslumiðlun sem almannaþjónusta. Á Íslandi gæti Seðlabankinn haldið utan um svona greiðslumiðlun eða Reiknistofnun bankanna.
Breki situr fyrir hönd Neytendasamtakanna í vinnuhópi á vegum ríkisstjórnarinnar sem skoða á gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna, en sá hópur hefur ekki komið saman enn.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga