„Maður upplifir það svolítið eins og kornið sem fyllti mælinn, með öllum þessum hækkunum sem hafa komið undanfarið og fólk finnur virkilega fyrir, þegar ákveðið var að skella á bílastæðagjöldum fyrir utan flugstöðina hérna. Upphaflega voru gjöldin mjög há, það var gjaldskylda strax eftir 15 mínútur, þannig að það var varla hægt að keyra fólk á flugvöllinn án þess að þurfa að greiða fyrir það. Þá reis upp óánægjualda, sem er í raun enn þá í gangi, og fólk er enn að reyna að halda þessu máli á lofti.“
Þetta segir Unnar Erlingsson, íbúi á Austurlandi, en hann tekur undir gagnrýni Ólínu Freysteinsdóttur, íbúa á Akureyri, um okur í innanlandsflugi. Unnar verður gestur Rauða borðsins í kvöld en Ólína greindi frá sinni gagnrýni á sama vettvangi í síðustu viku.
„Það eru myndavélar sem vakta svæðið og taka mynd af þér þegar þú keyrir inn og þegar þú keyrir út. Og ef þú ert lengur en tilsettan tíma þá ertu rukkaður sjálfkrafa, sem eigandi bílnúmersin. Nema ef þú hefur sett inn app til að gjaldfæra af kortinu þínu. Lágmarksgjaldið eru 1700 krónur, minnir mig. Svo er bara talið á hverjum klukkutíma, það er reyndar ódýrara fyrst en svo verður það bara dýrara.“
Við Rauða borðið í kvöld mun Unnar segja okkur nánar um okur í innanlandsflugi.