Gísli Tryggvason lögmaður segist telja líklegra að hægri blokkin fái betri útkomu þegar og ef kosið verður í Danmörku í haust. Kosningar verða að fara fram eigi síðar en 5. júní á næsta ári en næsta víst er að Mette Frederiksen forsætisráðherra muni rjúfa þing allra næstu daga og boða til kosninga.
Gísli segir að fjarað hafi undan Mette á síðustu mánuðum eftir mikla siglingu sem hún var á á tímum cóvid. Þá var hún með sterka stöðu landsföður eða -móður. Nú er þetta horfið og líklegt að hægri flokkarnir nái til sín fylgi þrátt fyrir að Venstre hafi tvíklofnað.
Fyrst gekk fyrrum formaður flokksins úr Venstre, Lars Løkke Rasmussen, og stofnaði Moderaterne. Síðan gekk fyrrum varaformaður flokksins úr skafinu, Inger Støjberg, og stofnaði Danmarksdemokraterne. Sem er sá flokkur sem er í mestri sókn.
Það er lítið að frétta vinstra megin í dönskum stjórnmálum. Þar eru flestur flokkar við kjörfylgi sitt frá 2019; Sósíaldemókratar og Radikale Venstre undir en Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Enhedslisten yfir.
Hægra megin er allt á ferð. Fylgi Venstre hefur minnkað mikið og danski Þjóðarflokkurinn er nánast að hverfa. Íhaldsflokkurinn er hins vegar í sókn og hefur mælst um tíma stærri en Venstre, sem ekki hefur gerst áratugum saman. En það eru Danmerkurdemókratarnir sem taka mest til sín, mælast rétt undir 10% í flestum könnunum. Moderaterne hans Lars Løkke eru hins vegar á engu flugi.
Gísli Tryggvason fór yfir stöðuna í dönskum stjórnmálum og ástandið á hverjum flokki í spjalli við Rauða borðið sem sjá má í spilaranum hér að ofan.
Myndin sem fylgir fréttinni er af Inger Støjberg stofnanda og formanni Danmarksdemokraterne.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga