Ögmundur Jónasson er nýkominn frá Basúr, sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Írak, þar sem hann var í sendinefnd sem átti viðræður við fulltrúa allra þarlendra stjórnmálaflokka til að hvetja til þess að leitað verði leiða til að stöðva ofsóknir Tyrkjahers á hendur Kúrdum í landamærahéruðum Tyrklands og Basúr og að hafnar verði að nýju í Tyrklandi friðarviðræður með aðkomu Abdullah Öcalan fangelsuðum leiðtoga Kúrda.
„Það er alveg óhætt að segja að heimsókn sendinefndarinnar hafi vakið athygli ef dæma skal af áhuga þarlendra fjölmiðla á fréttamannafundi eftir að sendinefndin hafði lokið viðræðum sínum. Þessi sendinefnd til Basúr var skipulögð af regnhlífarsamtökum Kúrda, KNK, en sú regnhlíf nær til allra Kúrda hvar sem þá er að finna hvort sem er í Tyrklandi, Írak, Íran eða Sýrlandi.
Þetta var þriggja manna sendinefnd. Annar tveggja formanna, KNK, Zainab Sahrad var með í för og síðan þýskur stjórnmálamaður, Jürgen Klute að nafni. Suður- afríkumaður, Sidney Luckett, gamalreyndur baráttumaður gegn kynþáttastefnunni í Suður-Afríku heltist úr lestinni á síðustu stundu af óviðráðanlegum ástæðum.
Við vorum þarna á ferð að kynna okkur aðstæður, kortleggja pólitíkina ef svo má segja, okkur til skilningsauka og jafnframt tala fyrir því að stuðningur fáist fyrir að friðarviðræðunum í Tyrkland við Kúrda sem slitið var 2015 verði haldið áfram og þá undir forystu hins fangelsaða leiðtoga Kúrda Abdullah Öcalan. Slíkar viðræður þóttu lofa góðu á árunum 2013 til 2015 en þá skellti Erdogan Tyrklandsforseti í lás og síðan hefur ofbeldi gegn Kúrdum innan landamæra Tyrklands magnast á nýjan leik svo og utan landamæra Tyrklands. Til þessa er einnig horft. Væru friðarviðræður aftur hafnar gæti það orðið til þess að grimmilegu árásarstríði Tyrkja í héruðum Kúrda í Sýrlandi og Írak verði hætt. Á Vesturlöndum hafa stjórnvöld og fjölmiðlar að uppistöðu til leitt þessar mannskæðu ofsóknir hjá sér sem er kapítuli út af fyrir sig og skýrist án efa af veru Tyrkja í NATÓ.
Það er margt orðið skýrara í mínum huga eftir þessa heimsókn til Basúr, sem hefur stöðu eins konar sambandsríkis innan Íraks. Fréttir hafa að undanförnu borist af drónaárásum Írana á skotmörk í höfðuborginni Erbil og hafa menn tengt það stríðsátökunum á Gasa. Þessar árásir hafa á meðal annars beinst gegn auðmönnum sem sagðir eru hlynntir Ísrael en þess er einnig að geta að Bandaríkjamenn hafa viðveru í landinu þótt takmörkuð sé en þó nægilega mikla til að Íranir sjái ástæðu til að minna þá á það að átökin fyrir botni Miðjarðarhafs geti hæglega breiðst út. Þetta er ein kenning en þá er horft framhjá því að þessar árásir eru ekki nýjar af nálinni og eru taldar tengjast því að órói er á meðal Kúrda í Íran og vilji Íranir gera grönnum sínum skýra grein fyrir því að þeir haldi sig á mottunni en jafnframt sé það langtímamarkmið að veikja sjálfstjórnarhérð Kúrda í Írak svo það þyki ekki fýsilegt til eftirbreytni á meðal íranskra Kúrda.
En þeir eru fleiri sem vilja veikja Basúr. Það vilja stjórnvöld í Írak tvímælalaust gera og það fyrir tvennar sakir. Skrefið til fulls sjálfstæðis Basúr verði erfiðara að stíga ef svæðið er logandi í deilum sem óhjákvæmilega verða raunin í langvarandi þrengingum til dæmis þegar fjárstreymi til ríkisstofanana er fryst eins og gert hefur verið síðan í haust. Miðstjórnin í Bagdad heldur um pyngjuna og getur lokað á fjárstreymi til ríkisstofnana í sambandsríkinu öllu. Fyrir bragðið hafa stórir hópar ríkisstarfsmanna, og var okkur sérlega bent á kennarastéttina, verið án launa mánuðum saman. Þá er minnt á að stjórnvöldin í Bagdad eru mjög háð Írönum sem hvetji til þess að grafið sé undan sjálfstjórnarhérði Kúrdaí Írak.
Þriðji aðilinn sem beitir Basúr hvað mestum þrýstingi eru svo Tyrkir. Þeir herja stanslaust á byggðir Kúrda í landamærahéruðum ríkjanna og hóta öllu illu láti stjórnin í Basúr þetta ekki gott heita. Það veldur svo deilum innan raða Kúrda. Þannig að eitt leiðir af öðru.
Ég er sannfærður um það og enn meir eftir þessa heimsókn að það verði ekki vikist undan því lengur af hálfu Evrópuríkja og Bandaríkjanna að tala um fyrir Erdogan og hann síðan með góðu eða illu fenginn til að setjast að smningaborði. Forsenda árangurs er svo aftur að gert verði eins og 2013, fangelssdyrnar á Imrali fangaeyjunni verði opnaðar og Öcalan boðið að sama samningaborði og áður. Öcalan vill semja og hefur sýnt að honum er alvara. Á hann hlusta Kúrdar hvar sem þá er að finna. Aðvitað getur enginn sagt með fullvissu um hverju samningaviðræður kynnu að skila en einhvers staðar þarf að byrja og ég held að allt skyniborið fólk geri sér grein fyrir því að kveikiþráður stórátaka í Miðaustur-löndum er styttri núna en oftast áður. Og magnist ófriðarálið þar myndi það auðveldlega geta breiðst til annarra svæða.”
Síðustu fréttir af loftárásum Bandaríkjamanna í slagtogi við Breta á Jemen, Írak og Sýrland síðustu daga hljóta að vekja óhug á þessum slóðum:
„Þarna er heimsveldið að leika sér að eldinum. Eisenhower þáverandi forseti Bandaríkjanna varaði við því í frægri ræðu um miðja síðustu öld að bandarískir hergagnafrmleiðendur mættu aldrei ráða ferðinni, “military industrial complex” kallaði hann það. Þessi vígvél kyndir nú undir ófríði víða í heiminum og undir stjórn þeirra Bidens og Blinkens er hún bremsulaus. Það ætti að vera öllum friðelskandi mönnum áhyggjuefni. Í þessri ferð sannfærðist ég um hve eldfimt ástandið er og að það er almenningur á Vesturlöndum sem þarf að rísa upp og grípa í taumana. Sofnanaveldið mun að öllu óbreyttu ekkert aðhafast, ekki Bandaríkin, ekki Evrópusambandið og þaðan af síður NATÓ og aðildarríki þess. Nú er kominn tími friðarhreyfinga að nýju til að koma vitinu fyrir ráðandi öfl, eða öllu heldur knýja þau til stefnubreytingar.“
Mynd er frá Roj News og er af fréttamannafundi Erbil, höfðuborgar Basúr.