NATO beinir spjótunum að Kína

NATO-China

NATO-fundinum í Washington lauk í gær, sem var haldin dagana 9. til 11. júlí. Í yfirlýsingu fundarins er spjótunum beint gegn Kína, sem er sakað um að styðja við Rússland í Úkraínustríðinu.

Í yfirlýsingu fundarins segir m.a. um Kína:

4. Yfirlýst markmið og aðgerðir Alþýðulýðveldisins Kína halda áfram að ógna okkar hagsmunum, öryggi og gildum. Síaukið samstarf milli Rússlands og Kína, og tilraunir þeirra til að grafa undan og endurmóta hina reglubundnu alþjóðlegu heimsskipan (rules-based international order), valda okkur miklum áhyggjum…

26. Alþýðulýðveldið Kína hefur stutt á afgerandi hátt við stríð Rússlands gegn Úkraínu með samstarfi sínu við Rússland sem þeir segja að hafi „engin takmörk“, og með umfangsmiklum stuðningi við hergagnaiðnað Rússlands. Þetta eykur ógnina sem stafar af Rússlandi gagnvart nágrönnum sínum, og gagnvart öryggi Evrópu- og Atlantshafssvæðisins. Við köllum eftir því að Alþýðulýðveldið Kína hætti öllum sínum stuðningi við stríðsátak Rússlands…

27. Alþýðulýðveldið Kína heldur áfram að skapa kerfisbundnar áskoranir fyrir öryggi Evrópu- og Atlantshafssvæðisins… Alþýðulýðveldið Kína heldur áfram að stækka og þróa kjarnavopnabúr sitt…

(Vert er að taka fram að Bandaríkin eru einnig að stækka og þróa sitt kjarnavopnabúr. Kína er ekki eitt um slíkt. Það er greinilega ekki að finna mikla maóíska sjálfsgagnrýni hjá NATO).

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO flytur ræðu á fundinum í Washington þann 9. júlí. Skjáskot frá C-SPAN.

Undanfarna mánuði hafa Bandaríkin og NATO í auknum mæli sakað Kína um að kynda undir stríðið í Úkraínu, þrátt fyrir að Peking hafi ekki veitt Rússlandi neina hernaðaraðstoð, á sama tíma og ríki Atlantshafsbandalagsins hafa verið að dæla vopnum inn á átakasvæðið og beita sér gegn friðarviðræðum. Í febrúar 2023 lagði Kína fram sitt friðartilboð í 10 liðum, sem Vesturlönd höfnuðu. NATO-ríkin hafa ekki lagt fram neitt sambærilegt friðartilboð. Í yfirlýsingu fundarins krefst NATO þess að Kína hætti að flytja svokallaðar „tvínota“ vörur til Rússlands (þ.e.a.s. vörur sem er hægt að nota bæði í hernaði og borgaralegri starfsemi).

NATO byrjaði fyrst að beina spjótunum að Kína í skjali sem var gefið út árið 2020. Árið 2022 var því formlega lýst yfir að Atlantshafsbandalagið stæði frammi fyrir „áskorunum“ í öryggismálum frá Kína. „Alþýðulýðveldið Kína heldur áfram að skapa kerfisbundnar áskoranir fyrir öryggi Evrópu- og Atlantshafssvæðisins“, eins og segir í tilkynningunni.

Kína svarar fyrir sig

Kínverjar hafa fordæmt yfirlýsinguna og svarað henni harðlega.

Global Times, sem er talið vera málgagn ráðandi Kommúnistaflokks í Kína, greinir frá því að talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Lin Jian, hafi sagt á blaðamannafundi á fimmtudag:

Yfirlýsing leiðtogafundar NATO í Washington gerir of mikið úr spennunni á Asíu-Kyrrahafssvæðinu, og einkennist af kaldastríðshugarfari og herskárri orðræðu, sem inniheldur ýkjur, fordóma, ærumeiðandi og ögrandi yfirlýsingar gagnvart Kína.

Svokallað öryggi NATO kemur á kostnað öryggis annarra, og mikið af öryggiskvíðanum sem NATO heldur uppi er þeirra eigin sjálfskaparvíti. Þessi svokallaði árangur og styrkur sem NATO státar sig af er veruleg ógn við heiminn.

Aðferðir NATO eru að halda uppi ímynduðum óvinum til að viðhalda tilveru sinni. Þessi þráhyggja bandalagsins að skilgreina Kína sem „kerfislæga áskorun“, og svívirðingar þeirra um innanríkis- og utanríkisstefnu Kína, eru dæmi um slíkt.

Global Times segir jafnframt að yfirlýsing NATO um að Kína sé að styðja við stríðsátak Rússa sé „fáránleg“. Þeir segja að NATO sé að tapa stríðinu í Úkraínu, og leiti þess vegna af afsökunum og blórabögglum.

Kínverskur sérfræðingur segir enn fremur í viðtali við dagblaðið að „breytingin á orðræðu NATO í átt að Kína er knúin áfram af Bandaríkjunum og vegna erfiðleika bandalagsins að glíma við Úkraínumálið. En því meira sem þeir berjast, því meira leita þeir að afsökunum. Frá upphafi hefur frásögn Bandaríkjanna og NATO verið að Rússar séu að tapa stríðinu, og þeir hafa talað um að hefja gagnsókn (sem við höfum þó ekki séð áhrifin af). En eftir því sem átökin dragast á langinn, þurfa þeir að finna fleiri og fleiri afsakanir fyrir því hvað þeim gengur illa, og afsökunin sem þeir grípa til núna er sú að Kína er vondi karlinn sem styður Rússland.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí