„Þegar ég byrjaði árið 2007 að benda á að skattbyrði lágtekjufólks hefði verið stórhækkandi frá um 1995 vegna þess að persónuafslátturinn (skattleysismörkin) hafði verið rýrður stórlega af stjórnvöldum, þá þverneituðu talsmenn Sjálfstæðisflokksins því að þetta hefði verið svo. Það gerði Óli Björn Kárason líka,“ skrifar Stefán Ólafsson á Facebook-vegg sinn í dag. Fyrirsögnin á þessari frétt er sótt í færslu Stefáns.
Stefán heldur svo áfram: „Ég kallaði þessa þróun „stóru skattatilfærsluna“, því um leið og skattbyrði lægri og milli tekjuhópa var hækkuð verulega þá var skattbyrði hátekju- og stóreignafólks stórlækkuð (m.a. með innleiðingu hins lága fjármagnstekjuskatts).
Í samræðum við Gunnar Smára Egilsson á Sprengisandi áðan viðurkenndi Óli Björn að þetta hefði verið svo, að skattbyrði lægri hópa jókst vegna þess að persónuafslátturinn hækkaði ekki í takti við laun. Það er hins vegar forsenda þess að skattkerfið sé óbreytt frá ári til árs, að viðmið þess (þ.m.t. persónuafslátturinn) hækki í takti við launahækkanir. Það voru stjórnvaldsákvarðanir ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að gera það ekki. Hugmyndin kom úr átt nýfrjálshyggjunnar, eins og Gunnar Smári hefur fjallað um í góðum nýjum greinum um skattamál.
Óli Björn sagði líka að á síðustu tveimur árum hafi þessu verið snúið við, „undir forystu Bjarna Benediktssonar“ og skattbyrði lægri tekjuhópa lækkuð. Þetta er billegt! Það var ekki að frumkvæði Sjálfstæðismanna að þetta var gert heldur að kröfu verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við Lífskjarasamninginn 2019.
Þessi stefnubreyting saxaði á óeðlilega skattbyrði láglaunafólks á Íslandi en mun lengra þarf að ganga á þeirri braut til að endurheimta það sem af var tekið á nýfrjálshyggjutímanum,“ endar Stefán færslu sína.
Hér má hlusta á kaflann um skattamál á Sprengisandi þar sem Óli Björn og Gunnar Smári takast á: Samstaða um að skattbyrði á lægri laun hafi aukist
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga