Helstu rök þeirra sem segja nauðsynlegt að ríkið selji hlut almennings í bönkum hafa verið að staða ríkissjóðs sé svo slæm. Í stuttu máli þá ganga þau rök út á að að skuldir séu svo miklar að ríkið verði að selja eignir til að borga þær niður. Gylfi Magnússon, prófessor í fjármálum og fyrrverandi ráðherra, er ekki sammála því, að svo virðist, en hann færir rök fyrir því að staða ríkissjóð sé alls ekki eins slæm og menn hafa látið.
Þetta segist hann lesa úr nýrri fjármálaáætlun en hann bendir einnig á að umsvif hins opinbera sé fjarri lagi óvenjumikil, líkt og sumir hægrimenn halda fram. „Margt áhugavert í nýrri fjármálaætlun. Gefur m.a. tilefni til að skoða nokkrar algengar fullyrðingar um fjármál og umsvif ríkissjóðs eða hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga. Stundum er t.d. fullyrt að vöxtur opinberra umsvifa sé gríðarlegur. Líklega er besti mælikvarðinn á þetta heildarútgjöld hins opinbera í hlutfalli við vergra landsframleiðslu. Á þennan mælikvarða jukust opinber umsvif verulega allt frá 19. öld og út þá 20. en síðan hefur ekki verið nein leitni til aukningar. Útgjöldin voru 45% af vergri landsframleiðslu um aldamótin og 45% í fyrra. Jukust í hruninu og svo aftur í Covid en það gekk í báðum tilfellum til baka,“ skrifar Gylfi á Facebook.
Líkt og fyrr segir þá telur Gylfi að skuldastaða ríkisins sé alls ekki hættuleg, líkt og haldið hefur verið fram. „Þá er stundum fullyrt að skuldastaða ríkisins eða hins opinbera sé ósjálfbær eða stórhættuleg. Nú eða að ríki og sveitarfélög séu að sökkva vegna vaxtabyrði. Hér verður fyrst að hafa í huga að í fjárlögum og uppgjörum er reiknað með nafnvöxtum en ekki tekið tillit til þess að verðbólgan rýrir skuldirnar. Réttara væri að horfa til raunvaxta. Það snarlækkar mældar vaxtagreiðslur. Síðan verður að hafa í huga að ríkið og raunar einnig sveitarfélög eiga verulegar eignir sem skila tekjum. Má þar sérstaklega benda á tvo banka og orkufyrirtæki. Besti mælikvarðinn á skuldastöðu hins opinbera er líklega það sem kallað er hrein peningaleg eign, sem er munurinn á eignum eins og verðbréfum, innstæðum og eignarhlut í fyrirtækjum annars vegar og skuldum hins vegar,“ segir Gylfi.
Máli sínu til stuðning deilir Gylfi tveimur gröfum, sjá má hér fyrir neðan. Annað sýnir útgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hitt sýnir hreina peningaleg eign hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. „Hið opinbera á mikið af öðrum eignum sem ekki teljast peningalegar, vegi, húsnæði o.m.fl. en það er ekki talið með. Þessi hreina skuldastaða var 31% af vergri landsframleiðslu í fyrra, þ.e. skuldir meiri en peningalegar eignir, en ívið lakari um aldamótin, t.d. 33% árið 2000. Hreina skuldastaðan hefur reyndar sveiflast mjög mikið síðan en eftir allar sveiflurnar er staðan svipuð og í upphafi aldarinnar. Inni í þessum skuldatölum eru metnar ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar en ekki dulin eign hins opinbera vegna skattfrestunarinnar sem er innbyggð í lífeyriskerfið. Væri reiknað með henni væru peningalegar eignir án efa talsvert meiri en skuldir hins opinbera. Set tvær skýringarmyndir hér fyrir neðan,“ segir Gylfi.

