Segir Guðlaug Þór leggja upp í illa skilgreinda „óvissuferð á kostnað skattgreiðenda“

Útboð á loftmyndatöku af Íslandi er illa skilgreind óvissuferð á kostnað skattgreiðenda, sem enginn veit hvað mun kosta þegar upp er staðið. Þetta skrifar Karl Arnar Karlsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Loftmynda ehf. í grein í Morgunblaðinu, þar sem hann fer hörðum orðum um þá stefnu sem Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur tekið í málaflokknum. 

Karl rekur að í Guðlaugur Þór hafi í nýlegu viðtali mært niðurstöður útboðs en sé hins vegar á villigötum þegar hann beri saman kostnaðartölur þess og núberandi samnings við Loftmynd. Sá samningur sé þjónustusamningur þar sem allt sé innifalið, en útboðið sé illa skilgreind óvissuferð, sem fyrr segir. „Engar fjárheimildir frá Alþingi eru til verksins og með öllu óljóst hvernig á að fjármagna það,“ skrifar Karl. 

Karl bendir ennfremur á að það sé misskilningur hjá Guðlaugi Þór að útboðið snúist um að taka nýjar loftmyndir af öllu Ísland. Þau erlendur fyrirtæki sem hafi verið samið við eftir útboðið hyggist hafa viðveru hér á landi í allt að þrjá mánuði á ári næstu þrjú árin, og reyna á þeim tíma að mynda eins mikið og hægt er. „Kannski verður ráðherra heppinn og íslensk sumur næstu árin verða einstaklega veðursæl en áhættan er mikil og eftirtekjan gæti orðið rýr. Til samanburðar tók það Loftmyndir ehf. níu ár að klára að mynda allt Ísland.“

Árið 2019 gáfu Landmælingar Íslands út skýrslu þar sem áætlað var að stofnkostnaður við að taka loftmyndir af öllu Íslandi væri á núvirði 700-750 milljónir og eftir það 160 milljónir á ári í viðhaldskostnað, skrifar Karl og segir enn fremur að núverandi samningur ríkisins við Loftmyndir kosti ríkið árlega minna en áætlaður viðhaldskostnaður. Nú telji Guðlaugur Þór sig hafa fundið leið til að vinna verkið fyrir aðeins brot af þeim kostnaði, en það sé gert með því að bjóða aðeins út hluta verksins.  „Með samanburði á núverandi fyrirkomulagi við það sem boðið var út má öllum vera ljóst að „díllinn“ er súr og á endanum mun kostnaður ríkissjóðs verða umtalsvert hærri en niðurstöður útboðsins gefa til kynna.“

Snúið að keppa við djúpa vasa ríkisins

En hvers vegna þarf að mynda Ísland og hvers vegna þurfa að vera til nákvæmar loftmyndir af landinu? Það varðar öryggi Íslands og innlent viðbragð, skrifar Karl. Hann segir að úr loftmyndunum hafi fyrirtæki hans unnið mjög nákvæm hæðargögn sem notuð séu í mannvirkjahönnun og neyðarstjórnun, gögn sem ekki séu til annars staðar. „Ráðherra veit að slík gögn þurfa að vera til og gefur í skyn að það verði unnið síðar. Hvað það kemur til með að kosta veit enginn.“

Það er snúið fyrir einkafyrirtæki, skrifar Karl, að standa í samkeppni við djúpa vasa ríkisins. „Stjórnmálaflokkur ráðherra hefur hingað til gefið sig út fyrir að standa með einkaframtakinu en ekki berjast gegn því eins og í þessu máli. Íslendingar hafa fram að þessu verið í þeirri öfundsverðu stöðu að hið opinbera hefur ekki þurft að fjárfesta í að safna loftmyndum en hefur tryggt sér afnot af þeim með lágmarkskostnaði. Þessu vill sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór nú breyta og ríkisvæða starfsemina og skjóta þannig sterkari stoðum undir vöxt ríkisbáknsins. Loftmyndir af öllu Íslandi eru þegar til og það ættu að vera augljósir hagsmunir ríkisins að þurfa ekki að vinna verkefnið aftur. Þrjátíu ára saga loftmyndatöku sem í dag er öllum opin á www.map. is er í óvissu og það er ábyrgðarhluti að líta fram hjá mikilvægi þeirrar sögu. Fjárhagsleg rök eins og enginn stofnkostnaður, engin óvissa og allt landið tilbúið ættu að duga til að ræða möguleika á samstarfi en ráðherra stendur fastur fyrir í brúnni með kíkinn fyrir blinda auganu og svarar ekki erindum um samtal.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí