Þetta verður ríkisstjórn undir forystu Bræðra Ítalíu

Heimspólitíkin 26. sep 2022

Giorgia Meloni, leiðtogi Bræðra Ítalíu, fagnaði afgerandi kosningasigri í Róm. „Næsta ríkisstjórn verður undir forystu Bræðra Ítalíu. Það er krafa kjósenda,“ hrópaði hún við mikinn fögnuð flokksmanna. Talning atkvæða staðfestir útgönguspár og kannanir í aðdraganda kosninganna. Hægra bandalagið nær meirihluta bæði í fulltrúadeild og öldungadeild þingsins. Og Bræður Ítalíu eru afgerandi stærsti flokkurinn.

Bræður Ítalíu fengu 4,4% atkvæða í kosningunum 2018 en eru nú með 26,0% í talningunni. Hægri bandalag Bræðra Ítalíu, Norðurbandlags Matteo Salvini og Áfram Ítalíu Silvio Berlusconi fá samanlagt 44% en fengu 37% síðast. Norðurbandalag Salvini tapar fylgi til Bræðra Ítalíu, falla úr 17,4% niður í 8,8% og Áfram Ítalía fellur úr 14,0% í 8,3%.

Þessi afgerandi staða Bræðra Ítalíu og Giorgiu Meloni mun tryggja henni forsætisráðuneytið. Bræður Ítalíu er flokkur sem stofnaður var upp úr flokkum sem voru arftakar Fasistaflokks Benito Mussolini. Það má því segja að fasistar hafi unnið Ítalíu í nótt, þótt Meloni og Bræður Ítalíu séu ekki með sömu stefnuna, enda 77 ár liðin frá stríðslokum.

Mið-vinstriflokkarnir bæta við sig, fara úr 22,9% í 26,0% af því sem talið hefur verið. Fimm stjörnuhreyfingin tapar hins vegar miklu, fer úr 32,7% í 15,6%.

Fimm stjörnuhreyfingin hefur verið skilgreind sem vinstri popúlísk hreyfing, líkt og Podamos á Spáni. Bræður Ítalíu hafa verið skilgreindir sem hægri popúlistar, eins og reyndar Norðurbandalagið og Áfram Ítalía líka. Niðurstöður kosninganna er því sveifla frá vinstri popúlistum og yfir til hægri popúlista. Ítölsk stjórnmál fara svo algjörlega fram á sviði hins svokallaða popúlisma.

Meloni endaði sigurræðu sína í að vitna í Frans frá Assisi: „Gerðu fyrst það sem er nauðsynlegt. Síðan það sem er mögulegt. Og áður en þú veist af ertu farin að gera hið ómögulega. Það er akkúrat það sem við höfum gert,“ hrópaði Meloni.

Enrico Letta, formaður Lýðræðisflokksins og leiðtogi mið-vinstri bandalagsins hefur sagt af sér. Giuseppe Conte formaður 5stjörnu hreyfingarinnar ætlar að sitja áfram, reynir að túlka niðurstöðuna sem varnarsigur og bendir á að hreyfingin sé þriðji stærsti flokkurinn á Ítalíu og sá stærsti syðst í landinu.

Einungis 63,9% kjósenda mætti á kjörstað og hefur aldrei verið lakari. 2018 var kosningaþátttaka 72,9%.

Fréttin verður uppfærð þegar nýjar tölur berast, en endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrr en á mánudagskvöld hið fyrsta.

Rætt verður við Michele Rebora stjórnmálafræðing um niðurstöður kosninga við Rauða borðið í kvöld, hvernig skýra má þær og hverjar afleiðingarnar verða.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí