Eitt kíló af ódýrustu frosnu kartöflunum kosta 1,49 evrur í Albert Heijn, stærstu stórmarkaðskeðju Hollands, eða 210 íslenskar krónur. Í Krónunni kostar ódýrasta kílópakkningin 709 kr. Munurinn er stjarnfræðilegur, 499 krónur eða 238%. Og skýringin er ekki 46% tollur á franskar kartöflur heldur krónískt okur á Íslandi.
Til að útskýra þetta skulum við fyrsta skoða frönskurnar í Hollandi:
Ef við reiknum með að smásöluálagning sé 25% þá getum við áætlað að heildsöluverðið á frönskum kartöflum í Hollandi sé 138,80 kr. þar sem virðisaukinn er 21% í Hollandi.
Ef við flytjum þessar kartöflur til Íslands ætti dæmið að líta svona út:
Við reiknum 10 kr. á kíló í flutning til Íslands, leggjum á 46% toll og svo 25% smásöluálagningu og síðan 24% virðisaukaskatts. Þá ætti smásöluverðið af kílói af kartöflum að vera 337 kr.
En svo er ekki. Kartöflurnar í Krónunni kostuðu 709 kr. sem er 372 kr. meira en þær ættu að kosta þrátt fyrir 46% toll.
Hvar er mismunurinn? Annað hvort eru íslenskir kaupmenn fádæma lélegir kaupmenn og kaupa inn á alltof dýru verði, langtum dýrara en kaupmenn í næstu löndum. Eða þeir eru okrarar, kaupa inn á svipuðu verði en aðrir en smyrja á kartöflurnar í heildsölu, sætta sig fádæma okur skipafélaganna og leggja síðan stórkostlega á kartöflurnar í smásölu.
Það eru alla vega engin eðlileg rök fyrir því að franskar kartöflur séu 238% dýrari á Íslandi en í Hollandi. 46% tollur vegur þar nokkuð en skýrir aðeins brot af vandanum. Sem er taumlaust okur fákeppnisfyrirtækja á íslenskum almenningi.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga