Ársþingi breska Verkamannaflokksins lauk í gær. Þingið fór fram á tíma algjörs hruns á efnahagsstjórn ríkisstjórnar Íhaldsflokksins og hefur því staða flokksins sjaldan verið sterkari. Leiðtogi flokksins lofaði í stefnuræðu sinni að snúa við skattalækkunum Íhaldsflokksins til fyrirtækja og hinna ríku, auk þess að stofna orkufyrirtæki í almannaeign til að byggja upp endurnýtanlega orkuframleiðslu.
Þetta eru vinsæl stefnumál meðal flokksfélaga og almennings. Hins vegar hefur áherslan á að „Verkamannaflokkurinn er flokkurinn á miðjunni“ vakið upp gagnrýni meðal vinstrisinna í flokknum og verkalýðsleiðtoga. Þeir telja að róttækari aðgerða sé þörf til að snúa við yfirvofandi hruni breska efnahagskerfisins.
“Verkamannaflokkurinn verður að vera róttækari,“ segir Sharon Graham, leiðtogi Unite stærsta verkalýðsfélags Bretlands, sagði í svari sínu við ræðu Starmers. „Hann verður að bjóða upp á skýra og raunhæfa mótspyrnu við kreppunni, mótspyrnu sem fólk getur skilið og bakkað upp. Skýr gjá hefur opnast upp í breskum stjórnmálum milli ríkisstjórna Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins. Það er kominn tími til að nýta sér það að fullnustu.“
Graham hélt áfram: „Eins og hetja Verkamannaflokksins, Nye Bevan, sagði árið 1953: „Við vitum hvað verður um fólkið á miðum veginum. Það verður keyrt niður““
Krafan um að taka lestarfyrirtækin og orkufyrirtækin aftur í almannaeign er sífellt háværari innan flokksins. Andy Burnham, borgarstjóri stór-Manchester, segir það augljóst að það þurfi að samfélagsvæða lestarkerfið á ný. Verkalýðsforingjarnir Sharon Graham og Mick Lynch segja nauðsynlegt að samfélagsvæða orkufyrirtækin til að bregðast við brjáluðum hækkunum og ofsagróða einkafyrirtækjanna í orkugeiranum. Það er því ljóst að sterk öfl innan flokksins vilja skýra vinstristefnu og áherslu á réttlæti gagnvart almenningi í landinu sem horfir fram á það að þurfa að velja milli þess að hita híbýli sín í vetur eða sleppa máltíðum. En þrátt fyrir þessa gagnrýni má segja að Sir Keir Starmer hafi átt gott flokksþing, enda færði gersamlega óhæf ríkisstjórn Íhaldsflokksins honum pálmann í hendurnar. Verkamannaflokkurinn er sterkur í skoðanakönnunum og ætti að vinna næstu kosningar ef þessi þróun heldur áfram:
Á þessari slóð má finna útvarpsviðtal við Sharon Graham þar sem hún leggur til að skerpa á áherslum flokksins. Hér má finna úrdrátt úr ræðu Starmers á þinginu.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga