Í Bretlandi hafa reikningar fyrir hita og rafmagni um það bil tvöfaldast frá því stríðið í Úkraínu skall á. Forsætisráðherra Liz Truss tilkynnti að frá og með október muni ríkisstjórnin tryggja verðþak sem nemur 2.500 sterlingspunda hámark fyrir hvert heimili. Talið er að kostnaðurinn geti vegið þungt fyrir ríkissjóð þar sem kostnaður veituaðila á eftir að hækka í allt að 6.000 pund ef fer sem horfir. Truss hefur verið gagnrýnd fyrir að láta ekki aðstoðina rata til þeirra heimila sem mest þurfa á henni að halda – og sömuleiðis fyrir að hafa ekki sett á hvalrekaskatt á orkufyrirtæki sem skila miklum hagnaði.
Verðlagshækkanir sem rekja má til orkukostnaðar og hækkandi verði á hrávöru eru sérstaklega íþyngjandi fyrir lægst launuðu starfsstéttir Bretlands.
Slökkviliðsmenn vinna mikla yfirvinnu og segjast nú þurfa að bæta við sig vinnu til viðbótar, utan slökkviliðsstarfsins til að ná endum saman. Slökkviliðin er að sögn miðilsins The Guardian illa mönnuð vegna niðurskurðar síðustu ára. Verkalýðsfélag slökkviliðsmanna er í kjaradeilum við breska ríkið. Forysta félagsins segir að kjör sem voru léleg fyrir, hafi rýrnað um 12% frá árinu 2009 á föstu verðlagi, nú síðast vegna dýrtíðar og hækkunar á orkukostnaði.
Og meira af baráttu verkafólks í Bretlandi. Starfsfólk við hafnir Liverpool-borgar hefur boðað til tveggja vikna verkfalls. Slitnað hefur upp úr viðræðum um kjarabætur. Því má búast við töfum á uppskipun sem mun valda minna framboði og þá líklega enn hærra verðlagi. Í Felixstowe höfn á vesturströnd Englands hafa verkfallsaðgerðir þegar stöðvað uppskipun í átta daga.
Allt þetta bætist ofan á umfangsmiklar tafir í lestarsamgöngum frá því í sumar. Nú hefur verið boðað til enn frekari aðgerða. Starfsfólk tólf mismunandi lestarfyrirtækja hafa boðað til verkfalls frá 1. til 5. október, á sama tíma og landsfundur Íhaldsflokksins er haldinn.
Það er því ljóst að aðgerðir ríkisstjórnar Tuss slær ekki á kröfur verkafólks.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga