45 dagar í embætti

Heimspólitíkin 20. okt 2022

Í dag sagði Liz Truss forsætisráðherra Bretlands af sér eftir aðeins 45 daga í embætti. Slær hún því met í því hversu stutt hún sat sem leiðtogi Bretlands. Þrátt fyrir það er óhætt að segja að ferill Truss hafi verið ævintýralega skrautlegur. Hér verður farið stuttlega yfir embættisferil hennar.

Þessi saga hófst um mitt sumar. Þann 7. júlí síðastliðinn sagði Boris Johnson. forsætisráðherra Bretlands, af sér. Það hafði kraumað undir honum lengi og hafði ráðherrann miðpunkturinn í fjölmörgum hneykslismálum og beinum lygum gagnvart almenningi og þinginu. Þingmenn Íhaldsflokksins höfðu fengið nóg. Þrátt fyrir góðan kosningasigur í þingkosningunum 2019 var Johnson einfaldlega búinn að brenna of margar brýr að baki sér. Hans tími var liðinn og við tók kosningabarátta innan Íhaldsflokksins sem endaði með því að Liz Truss bar sigur úr bítum. Hún var kosin með atkvæðum rúmlega 80 þúsund félagsmanna Íhaldsflokksins. Forsætisráðuneytið fylgdi með embættinu og tók hún við embættinu þann 6. september.

Mary Elizabeth Truss hefur verið framarlega í pólitíkinni í Bretlandi um nokkurn tíma. Hún var fyrst kosin á þing árið 2010. Árið 2012 var hún skipuð undirráðherra menntamála í ráðuneyti David Cameron. Hún var hækkuð í tign og varð umhverfisráðherra 2014, dómsmálaráðherra 2016, aðstoðar fjármálaráðherra 2017. Alþjóða viðskiptaráðherra 2019 og loks utanríkisráðherra 2021, embætti sem hún gegndi þegar hún bauð sig fram sem formaður Íhaldsflokksins.

Fljótlega varð ljóst í formannskjörinu að Truss var fulltrúi hægri arms flokksins, fulltrúi harðra nýfrjálshyggjumanna. Fór hún alls ekki í felur með skoðanir sínar og stefnur, lofaði stórfelldum skattalækkunum og afturhvarfs til tíma Margaret Thatcher sem er átrúnaðargoð hennar. Helsti mótherjinn var Rishi Sunak fjármálaráðherra sem talaði fyrir gamaldags íhaldsstefnu um jafnvægi í ríkisbúskapnum og aðhald í fjármálum. Með tæp 60% atkvæða var ljóst að stefna Truss féll flokksmönnum Íhaldsflokksins betur í geð.  Tveimur dögum eftir að hún tekur við embætti forsætisráðherra deyr drottningin þannig að fyrstu tvær vikurnar gerðist lítið sem ekkert á þinginu. En það þýddi ekki að hún væri ekki tilbúin með aðgerðapakka. Hún hafði lofað miklum breytingum í kosningabaráttunni og var varla búið að grafa drottninguna þegar kynnt var til sögunnar aukafjárlög af fjármálaráðherra hennar. Var í þeim pakka allt það sem hún hafði lofað að gert yrði.

Hún skipaði Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra. Þau höfðu átt samleið í hugveitu sem Truss stofnaði 2011 og var ein helsta hugveita últra nýfrjálshyggju í Bretlandi. Þessi hugveita hafði unnið að fjölmörgum stefnumálum sem nú skyldi framfylgja. Boðaðar voru stórfelldar skattalækkanir á hátekjufólk og fyrirtæki, auk þess sem tugir milljarða voru settir í að niðurgreiða orkukostnað. Kökuna átti að stækka. Skattalækkanirnar voru algjörlega ófjármagnaðar og olli það hruni á mörkuðum, pundið féll niður að dollaranum og vextir ruku upp sem olli erfiðleikum fyrir húskaupendur og ríkissjóð. Hófst þar með sú rússíbanareið sem nú sér loksins fyrir endann á í dag.

Samstöðin hefur flutt reglulegar fréttir af þessari reið. Í stuttu máli reyndi Truss að bjarga sér með því að reka Kwarteng fjármálaráðherra og snúa algjörlega um stefnu. Íhaldsmaðurinn Jerermy Hunt tók við embætti fjármálaráðherra og dróg hann til baka öll skattalækkanaloforðin. Var Truss því í raun orðinn gísl í eigin ríkisstjórn og ákvað hún í dag að hætta, enda voru tugir þingmanna Íhaldsflokksins búnir að lýsa formlega yfir vantrausti á hana. En í raun var Liz Truss fórnarlamb eigin sannfæringar. Það er nokkuð ljóst að hún trúði á brauðmolakenningarnar nýfrjálshyggjustefnu sinnar. Það þótt löngu hafi verið búið að afsanna þær tölfræðilega. Hún er sannfærður ójafnaðarsinni og fór ekki í felur með það. Því er ekki hægt að saka hana um óheiðarleika eins og fyrirvera sinn í embætti, Boris Johnson, sem er tækifærispólitíkus fram í fingurgómana. Að lokum voru það nýfrjálshyggjutrúarbrögðin sem enduðu feril hennar. Hún fékk tækifæri til að yfirfæra þessa trú á breska samfélagið en það endaði augljóslega með ósköpum.

Hvað tekur við er ekki ljóst á þessari stundu. Vonir margra standa til þess að það náist samstaða um nýjan formann sem fyrst. En það gerist varla. Of miklar væringar eru í Íhaldsflokknum til þess. Til að flækja málin enn er mögulegt að Boris Johnson snúi aftur, þó það skelfi marga. Aðrir sem koma til greina eru íhaldsmaðurinn Rishi Sunak, Penny Mordaunt úr viðreisnararmi flokksins og Suella Braverman og Kemi Badenoch koma til greina frá hægriarminum. Jeremy Hunt, sem margir töldu að tæki við, hefur boðað að hann sækist ekki eftir embættinu þó hugsanlegt sé að hann ætli sér að bíða átekta og vonast til að verða sáttaframbjóðandi á seinni stigum.

Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí